14.12.1939
Neðri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (3247)

125. mál, rafveitulánasjóður

Skúli Guðmundsson:

Ég vil byrja á að þakka hv. fjhn., að hún hefir tekið þessu frv. mínu vinsamlega, svo sem nál. á þskj. 373 ber með sér. Að vísu hefir hv. 6. þm. Reykv. lagt fram dagskrártill. til þess að eyða málinu nú, og er það því í nokkru ósamræmi við nál. sem hann hefir undirritað. Þótt ég telji ástæðu til athugasemda við dagskrártill. hans, mun ég ekki ræða það nú, þar sem hann hefir tekið hana aftur til 3. umr.

Þetta frv. mitt hefir sætt allhörðum andmælum, og eins og vænta mátti, sérstaklega frá fulltrúum þeirra kaupstaða, sem þegar hafa notið aðstoðar ríkisins til þess að koma upp rafveitum. Þykjast þeir báðum fótum í jötu standa og þurfa ekki á frekari aðstoð ríkisins að halda í því efni. Þessir hv. þm., þm. Ak., 4. þm. Reykv. og þm. Ísaf., hafa fundið frv. margt til foráttu og talið, að ekki væri fært að gera það að lögum.

Hv. 6. þm. Reykv. hélt því fram, að gengisbreytingin, sem gerð var á þessu ári, myndi valda rafveitufyrirtækjunum svo mikilla erfiðleika, að ófært væri að leggja á þau meiri gjöld. Út af þessum ummælum hans vil ég benda á, að gengisbreytingin verkar ekki meira á skuldir þær, sem stofnað hefir verið til vegna rafstöðvanna, en aðrar erlendar skuldir. Sama máli gegnir og um þær erlendu vörur, sem við kaupum; þær hafa hækkað í verði að sama skapi. Þannig hafa þeir, sem ekki hafa rafmagn, en þurfa að kaupa erlent eldsneyti og ljósmeti, orðið að greiða það hærra verði vegna gengisbreytingarinnar en ella.

Hv. 4. þm. Reykv. hneykslast á því, að með þessu frv. sé gengið inn á þá braut, að skattleggja skuldirnar, eins og hann orðaði það. Ég býst við, að eftir hans hagfræðikenningum sé það ótilhlýðilegt að taka vexti af skuldum. Þá vil ég og benda á það, sem hv. 4. þm. Reykv. mun kunnugt um, að það er ekki óalgengt, að lögð séu opinber gjöld á þá menn, sem tapa á atvinnurekstri sínum; meira að segja hér í Reykjavík, þar sem hann er borgarstjóri, eru ár eftir ár lögð stór útgjöld á rekstur, sem rekinn er með tapi. Hv. 4. þm. Reykv. sagði ennfremur, að því væru takmörk sett, hve hátt verð mætti setja á raforku. Þetta er rétt. En við ráðum ekki, hvaða verð þeir, sem ekki hafa raforku, verða að greiða fyrir kol og olíu, og það eru engu minni takmörk fyrir gjaldgetu þeirra en hinna.

Sterkustu rökin fyrir því, að sanngjarnt sé að leggja þetta gjald á rafveiturnar, eru þau, að þetta er ekki nema örlítið brot af þeim beina hagnaði, sem þeir hljóta, er ríkið hefir hjálpað til þess að koma á rafveitum, áður en stríðið brauzt út. Ef Reykjavík, Akureyri og Ísafjörður væru ekki búin að fá rafstöðvar, yrðu þessir bæir að kaupa kol til þess að elda við og olíu á lampana með hækkuðu verði, ekki einungis vegna gengisbreytingarinnar, heldur einnig vegna stríðsins. (PHalld: Kol og olía er ódýrara í notkun en rafmagnið). — Þá hélt hv. 4. þm. Reykv. því ennfremur fram, að það væri óþarft að koma upp rafveitulánasjóði, því að svona fyrirtækjum ætti að koma upp með lánsfé. Það má segja, að hann hafi reynsluna af lántökum erlendis, og hann hyggur, að hægt sé að taka lán á lán ofan í milljónatali erlendis, með ábyrgð ríkisins. Því miður er það svo, að til eru þeir menn á Alþ., sem ekki hafa meiri ábyrgðartilfinningu í fjármálum en þetta, og þó að þeir kalli sig sjálfstæðismenn, virðast þeir telja það þjóðráð að bæta nýjum erlendum lánum á þær skuldir, sem fyrir eru.

Þá var eitt atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. vék að. Hann telur, að rekstur þessara fyrirtækja, t. d. Sogsvirkjunarinnar, sé svo erfiður, að ómögulegt sé fyrir þau að bæta á sig þessu gjaldi. Ég var ekki á þingi, þegar lánið um Sogsvirkjunina var samþ. og ríkisábyrgð var tekin á því láni og fleiri slíkum lánum, en ég er ekki í neinum vafa um það, að fulltrúar þessara kaupstaða hér á þingi töldu það mjög mikilvægt, að þessi fyrirtæki nytu ríkisábyrgðar. Það var annar tónn í þeim þá heldur en nú; þá voru þetta að þeirra dómi glæsileg fyrirtæki, sem borgaði sig að leggja fé í. En ef þetta var rétt hjá þeim, þá geta þeir ekki komið og sagt, að þessi rekstur þoli ekki þetta litla gjald. Þetta smávægilega gjald er ekki nema örlítið brot af þeim hagnaði, sem fæst vegna þess, að þessar rafstöðvar komust upp áður en stríðið brauzt út. Ef þessar rafveitur eru svo illa settar, eins og hv. þm. Ísaf. og hv. 4. þm. Reykv. halda fram, þá álít ég hafi verið rangt af þinginu að veita þessar ríkisábyrgðir. Ég álít ekki rétt að veita ríkisábyrgð til fyrirtækja, sem eru byggð á svo veikum grundvelli, að þau þola ekki svo lítil útgjöld sem hér er gert ráð fyrir í mínu frv.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það myndi þurfa að stækka Sogsvirkjunina, og vafalaust ætlar hann þá, ef hann verður borgarstjóri í Reykjavík, að fá ábyrgð ríkisins á láni til þeirrar framkvæmdar. Hann er kannske að undirbúa það mál nú með því að skýra fyrir okkur, hvert vandræðafyrirtæki þetta sé. Hv. þm. sagði, að þessar framkvæmdir væru vafasamar, ef slíkir skattar væru lögboðnir. Hvernig ætli það sé hjá Norðmönnum, sem hafa miklu hærri skatta en hér er gert ráð fyrir? Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að sér þætti undarlegt, ef norskar rafveitur væru stórkostlegur skattstofn. Eins og fram er tekið í grg., hefir verið athuguð löggjöf Norðmanna um þessi efni og stuðzt að nokkru leyti við þá löggjöf. Um norsku lögin er í greinargerð frv. birtur kafli úr bréfi frá Vilhjálmi Finsen, umboðsmanni okkar í Noregi, og geri ég ráð fyrir, að hv. 4. þm. Reykv. telji það ekki ómerkar heimildir. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. rengi Vilhjálm Finsen um það, sem hann heldur hér fram um gjöld Norðmanna til rafstöðva þar í landi. Hitt er annað mál, að mér finnst sjálfsagt að fagna því, að athugaðar séu fleiri leiðir til tekjuöflunar fyrir rafveitulánasjóð heldur en þessi, sem ég hefi bent á; ég mun fagna því, að menn geri það. En slíkt breytir engu um réttmæti þess gjalds, sem frv. gerir ráð fyrir.

Hv. þm. Ísaf. var að tala um það, að hér væri verið að koma aftan að þeim mönnum, sem þessi fyrirtæki eiga, með því að leggja skatt á þau. Það er nú svo, að skattal. er oft breytt frá ári til árs, og það mætti segja, að í fleiri tilfellum væri komið aftan að mönnum, hvort sem menn t. d. leggja í útgerð eða í landbúnað. Það hefir verið hækkaður tekjuskattur á mönnum hvað eftir annað, án þess að launal. hafi verið breytt nokkuð frá 1919, og það má alveg eins halda því fram, að með því sé verið að koma aftan að mönnum.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að það mætti alveg eins leggja gjöld á símanotendur eins og rafmagnsnotendur. Þetta er líka gert. Frv. til fjárl. var nýlega afgr. til 3. umr., og það eru hvorki meira né minna en eitthvað yfir 300 þús. kr., sem gert er ráð fyrir, að sé tekið sem skattur af símanotendum, og rennur það beint í ríkissjóð. Ef eitthvað svipað fæst í rafveitulánasjóð, þá er ég vel ánægður með þá lausn málsins.

Mér sýnist útlit fyrir, að þetta frv. verði eyðilagt á þessu þingi, en það er ekki þar með víst, að það sé horfið úr sögunni að fullu og öllu. Ég verð að harma það, ef þannig fer, ekki aðeins vegna þess, að málið er þá tafið að nauðsynjalausu, heldur engu síður fyrir hitt, að það sýnir, að annar andi er ríkjandi á Alþingi heldur en ætti að vera. Það sýnir það, að hér er of mikið af sérhlífni og sjálfselsku hjá fulltrúum þeirra héraða, sem hafa fengið aðstoð þjóðarheildarinnar að undanförnu til þess að fá þessi mikilvægu lífsþægindi, rafmagnið, í sína þjónustu. Ég tel það leitt, þegar sá andi skýtur upp kolli, að heimta mikinn stuðning af öðrum til þess að geta notið sem mestra þæginda, en vilja sem allra minnst eða engu fórna sjálfur fyrir málið.