04.12.1939
Efri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (3259)

135. mál, prófessorsembætti í uppeldisfræði og barnasálarfræði

*Jónas Jónsson:

Ég ætla aðeins að segja fáein orð um þetta frv. Því mun verða vísað til n., en ég álít rétt, að það fari ekki frá n. á þessu þingi. Þær ástæður, sem færðar hafa verið fram, eru þær, að það er verið að reisa mikla byggingu fyrir Háskóla Íslands, og það er nokkurn veginn víst, að sú bygging komist upp og takist að hita hana upp, ef hitaveitan kemst á, á þessu ári. Það hafa komið til mála breyt. á Háskóla Íslands. Ein breyt., sem í raun og veru var undirbúin fyrir löngu með l. um Háskóla Íslands, er um uppeldisfræðikennslu í háskólanum. Um það er allt óákveðið ennþá, og verður að líta á þetta sem fullkomlega út í loftið, ef farið væri að stofna prófessorsembætti án þess að bíða eftir því, að gerð verði skipulagsbreyting í uppeldismálum, sem leiðir af því, að byggingin er ekki fullgerð. Ég mun greiða atkv. með því, að frv. verði sent til n., en hefi komið hér fram með nægileg rök fyrir því, að ekki er ástæða til að samþ. það, vegna fjárhagshliðarinnar.