30.11.1939
Neðri deild: 72. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (3274)

139. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hæstv. forsrh. hefir rætt öll helztu atriði þessa máls, sem þarf að athuga við meðferð þess, ásamt því, sem hv. flm. tók fram sjálfur. Vil ég aðeins bæta við það örfáum orðum. Þá er fyrst að minnast þess, að hvaða dag Alþingi skyldi koma saman til starfa, hefir löngum reynzt vandamál undanfarið, einkum vegna þess, hve þá er langt frá byrjun þess fjárhagsárs, sem Alþingi á að undirbúa. Þetta hefir m. a. leitt til þess, að þinghaldið hefir verið klofið í tvennt. Ennfremur er þess að gæta, sem hv. flm. kom og inn á, að athuga þarf, að þegar fjárl. eru ákveðin svo löngu fyrirfram, en svo kemst ný stjórn til valda, eða nýr meiri hluti skapast í þinginu, þá kemur hinn nýi meiri hl. í raun og veru seinna til valda en eðlilegt er, þar sem búið er að ákveða fyrirfram fjárl., sem hann verður að stjórna eftir. Þetta hvorttveggja eru atriði, sem endurskoða þarf.

Hæstv. forsrh. minntist á það, að ef menn kæmu sér ekki saman um fjárl. á haustþinginu, þá yrði að gefa út bráðabirgðafjárl. Þetta getur vel komið fyrir, og þá gæti komið fyrir, að þau fjárl. yrðu í raun og veru að gilda fyrir allt árið, þótt það færi eftir því, hve menn sæju sér fært að láta kosningar fara snemma fram. Ef þær ættu ekki að fara fram fyrr en í júní, þá gæti Alþingi ekki komið saman fyrr en seinast í júní eða fyrst í júlí, en eins og menn vita, þá verður yfirleitt að ákveða í síðasta lagi í júní ár hvert, hvaða verklegar framkvæmdir á að vinna á sumrinu, og verður þá auðvitað að liggja fyrir ákvæði í fjárl. um það, hve miklu fé skuli varið til þeirra. Það verður hlutverk hv. n., sem fær málið til meðferðar, að athuga, hve snemma má telja fært að kjósa. Ef fært þætti t. d. að láta kjósa í apríl eða fyrst í maí, myndi það minnka hættuna á því, að stjórna yrði eftir bráðabirgðafjárl. til lengdar; þau myndu þá ekki þurfa að gilda nema fyrstu mánuði ársins, þann tíma, sem verklegar framkvæmdir eru minnstar. Ef fært þætti, að þingið kæmi svo snemma saman, mætti ganga nógu snemma frá því, hvað framkvæma skal um sumarið, þótt með því sé öllu teflt á tæpasta vaðið. Einnig þetta verður að athugast í n., sem um málið fjallar. Þótt erfitt sé að setja fjárl. í apríl eða maí, sem ekki eiga að taka gildi fyrr en 1. janúar árið á eftir, þá er þó hitt torveldara, að oft þurfi að setja bráðabirgðafjárl., sem yrðu að gilda allt fjárhagsárið. Það er allt annað, ef þau þurfa ekki að gilda nema nokkra mánuði. Þetta vil ég benda á, að þarf að rannsaka sérstaklega gaumgæfilega. Þetta fer algerlega eftir því, hve snemma er hægt að kjósa að vorinu og hve Alþingi getur tekið snemma til starfa.

Nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum hafa ekki almanaksárið fyrir fjárlagaár, heldur telja þær það frá 1. apríl til 1. apríl, vegna þess, að þær vilja ekki ákveða fjárlögin fyrr en í byrjun hvers fjárlagaárs. Ég held ekki, að það væri heppilegt fyrir okkur að hafa fjárhagsárið frá 1. apríl eða maí, því við myndum fljótt reka okkur á, að ekki væri hægt að hafa þingrof og kosningar á ný svo snemma, að Alþingi gæti tekið fjárl. til afgreiðslu, heldur yrði að notast við brbl. fjárl., og er það mikið neyðarúrræði.

Ég vil benda á, að ef ekki þykir fært að ákveða kosningar eftir þingrof það snemma, að Alþingi geti ákveðið framkvæmdir fyrir sumarið, þá verður að bera það saman við þann möguleika, að við höfum fjárhagsárið frá 1. maí til 1. maí. Ef fara þarf út í það að gefa út bráðabirgðafjárl. fyrir allt árið, þá er heppilegast að breyta reikningsárinu þannig. — Svo vildi ég benda á annan möguleika. Það er að breyta reikningsárinu þannig, að það verði frá 1. september til 1. september. Sú breyting mundi áreiðanlega verða til bóta, og ég sé ekki, að hún mundi valda nokkrum „tekniskum“ erfiðleikum, á sama hátt og nágrannaþjóðir okkar hafa ekki talið það valda neinum erfiðleikum að hafa fjárhagsárið frá 1. apríl til 1. apríl.

Ég vildi aðeins benda á þetta til viðbótar því, sem hæstv. forsrh. tók fram, en ég vil ekki, að það sé skilið svo, að ég sé að andmæla því, að þetta frv. sé athugað. Ég vil slá því föstu, að frá minni hálfu tel ég þetta mikið vandamál, sem að vísu hefir mikið verið rætt undanfarið, en vel verður að hugsa áður en því er breytt til frambúðar.