30.11.1939
Neðri deild: 72. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (3275)

139. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Flm. (Jón Ívarsson):

Ég vil leyfa mér að þakka þeim tveimur hæstv. ráðh., sem báðir hafa rætt vinsamlega um málið, eða þannig, að þeir vilja láta athuga það.

Þær ástæður, sem hæstv. forsrh, minntist á, kom ég að nokkru inn á í minni fyrri ræðu, og vísa ég til þess, er ég þá sagði. Þó skal ég endurtaka, að þótt samkomudegi Alþingis verði breytt eins og farið er fram á í frv., þá breytir það engu frá því, sem verið hefir undanfarið, þegar þinghaldið hefir verið á haustin.

Að því er viðkemur vandanum út af þingrofi, þá skil ég ekki, að það breyti miklu frá því, sem nú er, þegar þingið er haft í tveimur hlutum og aðalstörfin unnin síðast á árinu. Eins og undanfarið myndum við í framtíðinni verða að standa augliti til auglitis við þau vandræði, að þingrof geti komið fyrir, og þá kemur til greina hinn umræddi 8 mánaða frestur, sem sé, að nóg sé að kosningar séu auglýstar og undirbúnar innan tveggja mánaða frá þingrofi. Æskilegt væri, að sú skoðun væri ríkjandi, að það væri rétt lögskýring, sem ég nú hefi nefnt.

Það annað atriði, sem hæstv. forsrh. minntist á, að sú stjórn, sem kæmist í minni hluta, yrði að sitja til næsta árs, og leiðir það af sjálfu sér, en það er ekki annað en það, sem mundi koma fyrir, ef þingið væri að haustinu. Annað, sem hann minntist á, var það, að næstum því væri ófært að afgreiða fjárl. fyrr en í byrjun þess árs, sem þau eiga að gilda fyrir. Báðir ráðh. minntust á þau vandræði, sem því fylgja, að setja bráðabirgðafjárl. Ég játa, að það er óheppilegt, en þó er það ekki annað en það, sem við yrðum að gera, ef þing væri rofið nú vegna ósamkomulags milli þeirra flokka, sem að stjórn standa, svo við stöndum andspænis þeim vanda, ef þing væri rofið í ár, að kosningar gætu ekki fram farið fyrr en að vori, og sú stjórn, sem er við völd, yrði að stjórna með bráðabirgðafjárl. til kosninga. — Þetta eru allt mál, sem viðkomandi n., er málið fær til meðferðar, verður að taka til rækilegrar umhugsunar og leita álits hv. þm., enda ekki nema sjálfsagt, að svo sé.

Ég vil láta þá ósk í ljós, eins og ég gerði í minni fyrri ræðu, að málinu verði vísað til 2. umr. og viðeigandi n., að lokinni þessari umr. En það væri ágætt, að hv. þm. létu skoðanir sínar á málinu í ljós áður en það fer til n.; það gæti orðið henni til leiðbeiningar.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. minntist á, að hafa fjárhagsárið annað en almanaksárið, þá viðurkenni ég, að það er auðvitað framkvæmanlegt, en ég tel það vera fremur óviðkunnanlegt, en e. t. v. þarf það ekkert að rekast á, þótt svo verði gert, en einnig það er atriði, sem athuga verður í viðkomandi n.

Vil ég svo ekki tefja hv. þm. með því að segja fleira um þetta mál, fyrr en þá að fleiri hafa tekið til máls.