30.11.1939
Neðri deild: 72. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (3281)

140. mál, jarðræktarlög

Skúli Guðmundsson:

Ég er sammála hv. flm. frv. um, að byggingar þessar eigi að vera styrkhæfar engu síður en aðrar jarðabætur. En þó vil ég vekja athygli á einu atriði og beina því til landbn., hvort ekki mætti styrkja slík geymsluhús, þótt minni séu en tekið er til í frv. Mér finnst lágmarksstærð geymsluhúsanna óþarflega há, þar sem ástæða er til að styrkja bændur til slíkra bygginga, þótt þeir hafi ekki svo mikla garðyrkju sem ráð er fyrir gert í frv. Möguleikarnir á að koma vörunni á markað eru mjög mismunandi víðsvegar á landinu, og veldur það oft því, að menn rækta ekki garðávexti í stórum stíl. En nauðsyn er á, eftir sem áður, að geta geymt jarðarávöxt til útsæðis og heimilisþarfa.