19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (3294)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. frsm. meiri hl. allshn. hefir réttilega skýrt frá, að n. varð ósammála um afgreiðslu þessa frv. Ég og hv. 7. landsk. þm. skiluðum sérstöku nál. á þskj. 481. Okkur virðist, að annað sé við fé ríkisins að gera á þessum tímum heldur en að veita stórar upphæðir til þess að eyðileggja fuglalíf landsins; sum atriði þessa frv. virðast koma til með að verða stór útgjaldaliður á sveitarfélögum og héruðum. Það virðist vera æðieinkennileg afstaða sumra hv. þm. til fuglalífs landsins eða gagnvart því, þar sem fyrir nokkrum árum voru samin sérstök fuglafriðunarlög fyrir fuglalífið í heild. Þau eru nú í undirbúningi, og því var lýst yfir hér í þinginu fyrir nokkru, að þau væru vel á veg komin, og verða að líkindum lögð fyrir næsta þing. Með þessum friðunarl. verður lagður grundvöllur að fullkominni friðun fugla í landinu, og með stuðningi sínum við það mál hefir Alþ. sýnt, að það vilji fremur vernda fuglalíf í landinu en útrýma ýmsum fuglategundum.

Þó að hrafninn og veiðibjallan gangi næst þessum hv. þm., þá hafa sjálfsagt íbúar annara landshluta undan öðrum fuglategundum að kvarta. T. d. er örninn á einum stað orðinn allt of margur, svo ef til vill fyndist einhverjum ástæða til að útrýma honum. Svo gæti farið, að hver landsmaður vildi fá lagt fé til höfuðs þessari og þessari fuglategund. Í l. frá 1936 var leyft að drepa veiðibjölluna, svo nýmælin í þessu frv. viðvíkjandi henni eru aðeins stórkostlega aukin útgjöld í sambandi við eyðingu hennar. Ef ætti að eyða þessum fuglategundum á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, fer ekki hjá því, að stórfé þyrfti til, og gætu runnið drjúgar tekjur í vasa veiðimanna. Kannske það sé tilgangur flm. með frv. að bæta úr atvinnuleysinu, — og það yrði ekki svo lítill styrkur. Í 2. gr. frv. er talað um, að sveitarfélagið skuli greiði 20% af gjaldinu fyrir hvern fugl, sem drepinn verður samkv. frv. Ég tel víst, að hér sé átt við hreppinn, sem fuglinn er drepinn í, en ekki þann, sem veiðimaðurinn er frá. Annars er þetta ákvæði mjög óljóst; það mætti jafnvel halda, að hér væri átt við hreppinn, sem fuglinn er fæddur í!

En fyrir hvaða sveitarfélag, sem hér er átt við, yrði eyðing þessara fuglategunda stórlega aukin útgjöld, og trúað gæti ég því, að sveitarstjórnir myndu hugsa sig um áður en þær óskuðu eftir slíkum lögum. Enda býst ég við, að þær hafi flestar nóg á sinni könnu, þó að þær fari ekki að greiða svo þús. kr. skipti til þess að láta drepa hrafna og veiðibjöllur. Hv. flm. hafa ekki látið þar við sitja, heldur sett ákvæði inn í frv. um, að ábúandi þeirrar jarðar, þar sem fuglinn fæðist, skuli sektaður um 50 kr. og þar yfir fyrir hvert hreiður, sem þeir vanrækja að eyðileggja. Nú verpa þessir fuglar oft innan um gil og klungur og ómögulegt að komast að hreiðrunum. Það væri gaman að sjá framan í bændurna, ef ætti að sekta þá fyrir hvert hreiður, sem ekki væri eyðilagt, og það án tillits til þess, hvort það væri mögulegt eða hvort þeir hefðu tíma til þess, eða hvort landeignir manna væru svo stórar, að þeir kæmust ekki yfir það.

Ég er sannfærður um, að öll þessi ákvæði frv. eru mjög vanhugsuð, svo ég noti ekki sterkari orð. Það eitt virðist vaka fyrir flm., að sem flestir fái áhuga fyrir að útrýma þessum 2 fuglategundum, en þeir virðast ekki taka með í reikninginn þá fjárhagslegu byrði fyrir ríkið og sveitarfélög, sem þessari útrýmingu fylgdi.

Þá segja hv. flm. í grg. frv., að æðarvarp hafi mjög minnkað, og manni skilst, að það hafi minnkað eingöngu vegna fjölgunar þessara fuglategunda. Ég hefi sjálfur æðarvarp með höndum, og annarstaðar, þar sem ég þekki til, hefi ég aldrei vitað til, að hrafn eða veiðibjalla hafi ásótt varpið. Þrátt fyrir það hefir dúntekjan hjá mér minnkað úr 100 kg niður í 30 kg á nokkrum áratugum. Ég er því sannfærður um, að hér er ekki um að kenna hrafni eða veiðibjöllu, og ef þetta ætti að vera dauðasök og eitt nóg til þess að ófriða þessa fugla, þá verður að taka fleiri aðila með. A. m. k. er gerður mikill usli í æðarvarpi af mannavöldum, og þyrfti að leggja fé til höfuðs fleirum en hrafni og veiðibjöllu.

Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að frá hvaða sjónarmiði sem frv. er athugað, sé það mjög vanhugsað. En því mun heldur ekki takast að leggja byrðar á herðar þess opinbera eða tortíma fuglalífi landsins, því sú stefna er yfirleitt ríkjandi á Alþingi að vernda dýralíf landsins. Ég vænti þess eindregið, að hv. þm. sjái sóma sinn í að láta slík frv. sem þetta ekki ná fram að ganga.