19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (3295)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Sigurður Kristjánsson:

Það urðu mér nokkur vonbrigði, að hv. allshn. varð ekki sammála um þetta frv. Þrátt fyrir ræðu hv. 1. þm. Rang. hefi ég ekki séð neinar frambærilegar ástæður móti þessu frv., og ég hafði ekki búizt við svo ólíklegu, að nokkur maður léti sér detta í hug að vera móti svo nauðsynlegu máli. Ég verð að segja það um ræðu hv. 1. þm. Rang., að hún sé flutt miklu frekar af gáska en alvöru, og hann tók þannig á málinu, að hann vildi engu síður skemmta mönnum en tekið væri alvarlega það, sem hann sagði, eins og þegar hann sagði, að drápið ætti kannske að borgast af fæðingarhreppi fuglsins. Rök hans að öðru leyti voru í fyrsta lagi þau, að þetta myndi kosta mikið fé, og í öðru lagi, að frv. stefndi að því að eyða fuglalífi í landinu. Um fyrra atriðið er það að segja, að það eru nú gildandi lög um að útrýma veiðibjöllu, og það er aðalefni þessa frv. Að sönnu er það fé, sem lagt er til höfuðs veiðibjöllunni í l., lægra en í frv., en í reyndinni mundi framlag ríkissjóðs ekki verða meira, sakir þess, hve það tekur langan tíma að útrýma þessum fugli eftir l., sem nú gilda. Það er miklu betra að ráða menn til drápsins heldur en gefa þessum vargfugli tíma til þess að fjölga og eyðileggja framleiðslu landsmanna. Ég efast um, hvort verður dýrara. Það ber að líta á, þegar ríkið leggur fram fé til einhverra hluta, hvað fæst í aðra hönd, og það má fullyrða, að það, sem ríkið legði fram í þessu skyni, myndi strax hafa nokkurn árangur árið eftir. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir athugað, hve mikið æðarvarpið hefir rýrnað hér á landi af völdum þessara vargfugla á undanförnum árum og hve sú fjárhæð er stór, sem æðardúnninn hefir minnkað um síðan 1912. Eftir hagskýrslum var flutt út 1937 hátt á annað þús. kg minna en 1912. Með tilliti til þess, að varan hefir hækkað í verði og notkunin minnkað innanlands, nemur þessi rýrnun í peningum 135 þús. kr. á ári, eftir því verði, sem nú er á dún. Menn sjá af þessu, að ekki er til smáræðis að vinna. Hitt atriðið, að með frv. sé stefnt að því að eyða fuglalífi landsins, er misskilningur, og er það fremur til þess að vernda fuglalífið, einkanlega arðberandi fugla. Það er vitað mál og eftir því taka allir, sem ferðast um landið, að vargfuglinn er í yfirgnæfandi meiri hluta, þar sem hann á annað borð heldur sig. Annað fuglalíf virðist tæplega geta þrifizt þar, sem hann er nálægur, enda fjölgar þessum ófögnuði mjög ört. Ég er sannfærður um, að a. m. k. hrafninn lifir ekki á neinu öðru en ungum annara fugla mikinn hluta vorsins. Allir vita, að veiðibjallan lifir mikið á æðarungum um varptímann. Það er því aldrei heppilegt fyrir blinda að dæma um lit. Ég held, að mér sé alveg óhætt að fullyrða, að ef minni hluti allshn. er að dæma hér í alvöru um frv., þá sé blindur að dæma um lit. Það er sýnilegt, að hann hefir ekki veitt því athygli, hvernig þessi vargfugl nærist. Ég minnist þess þegar ég var lítill drengur, að ég sá oft æðarfuglinn, sem lá í hreiðri sínu, vera rekinn af eggjum sínum af veiðibjöllunni. Ég sá hana fljúga með aumingja litlu ungana í kjaftinum og rífa þá í sig. Börn eru að vísu viðkvæmari en fullorðnir menn, en þó fæ ég ekki skilið, ef menn vilja ekki útrýma þessum ófarnaði og því fargi, er hvílir á þeim, er vargfuglinn leggst á. Vargfuglinn gerir hið mesta afhroð ár hvert hinu nytsama fuglalífi þessa lands með ránum sínum. Og ég hefi líka komið að kindum, sem fallið hafa niður um ís eða niður í dý, og ég hefi séð tómar augnatóttirnar og bæði augun étin úr þeim. Þetta er ekki aðlaðandi sjón fyrir menn, og ég skil ekki það fólk, sem biður þessum fuglum griða. Ég vona, að enginn hafi slíkt hrafnshjarta, að hann óski eftir slíkum aðförum. Og enginn gleymir því, er séð hefir, þegar sjór er fallinn að fjöru, æðurin situr yfir, veiðibjallan situr skammt frá, og þegar sjór fellur undir fjölskylduna, flýgur fram þessi ástvinur minni hl. allshn. til að þjóna lund sinni og pólitík hans. Ég hefi tínt upp 6–8 unga í einni lotu eftir slíka herferð veiðibjöllunnar.

Þetta er hlutur, sem snýr að fuglalífinu og náttúrufriðun æðarfuglsins, en um fjárhagshlið málsins skal ég ekki hafa fleiri orð. En á því er enginn vafi, að þjóðhagslega séð er það hin mesta nauðsyn að útrýma vargfuglunum, því að það er skilyrði til þess að tryggja í framtíðinni menningarlega rækt æðarvarps. Ég vona því, að hv. deild samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir.