19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (3296)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Frsm. minni hl. (Sveinbjörn Högnason):

Ég hefi fáu að svara ræðu hv. flm. þessa merkilega frv. Ég á bágt með að tala alvarlega um það; mörg ákvæði þess finnast mér brosleg og ekki takandi alvarlega. Frv. skýtur langt yfir það mark, sem sómasamlegt er að flytja á Alþingi. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á það, sem hv. flm. taldi aðalatriði, útrýmingu svartbaksins. Mér finnst, að ef svo hart á að ganga að þessum fugli, þá megi eins setja grágæsina og aðra fugla undir sama ákvæði, því að þeir eru undir sömu fordæminguna seldir. Ef svo verður ekki gert, þá tel ég lögin frá 1936 um dráp svartbaks alveg nóg. Hér er heitið verðlaunum fyrir eyðingu á svartbaki og hrafni, en mér sýnist alls engin þörf á að bæta auknum útgjöldum á sveitabóndann í þessu skyni. Ég veit raunar ekki, hvort hv. þm. ætlast til, að verðlaunin fyrir þetta fugladráp verði greidd í gullkrónum. En annars verður það öllum fyrir beztu, ef frv. verður tekið aftur.

Útgjöldin af þessu frv., ef samþ. yrði, gætu orðið töluvert mikil; þau gætu orðið 135000 kr. á ári hverju. Því mundu fylgja miklar annir að skjóta vargfuglinn; mörgum hreppum yrði að vísu ekki fæðuvant. Þó eru engin ákvæði um að setja toll á hina auknu fuglatekju, sem af frv. myndi leiða, né heldur að stofna verðjöfnunarsjóð í því skyni! Þetta er sem sagt mjög ómerkilegt frv.

Ég vil þó benda á það ákvæði frv., er mælir svo fyrir, að hreppurinn eigi að greiða 20% af verðlaununum. En það er ekkert ákveðið, hvaða hreppur eigi að greiða þetta fé. Veiðimaður gæti gengið um alla hreppa og skotið vargfugl, — og hver á að hafa eftirlit með því, hvar hann drepur fuglinn? Ég gæti trúað, að mörgum hreppum yrði það furðu erfitt að greiða öll gjöld, sem safnazt hefðu úr heilli sýslu. Það gæti orðið allmikið fé — 1 króna á hvern fugl.

Hv. flm. hélt því fram, að vargfuglar þessir væru náttúrunni skaðlegir. En sjaldan hefir það leitt til góðs, er menn hafa farið að skipta sér af gerðum náttúrunnar, og það hefir jafnvel reynzt bezt að láta hana fara sínu fram án slettirekuskapar mannanna. Og það er trú mín, að slíkar ráðstafanir, sem hér er farið fram á, að eyða vissum lífverum til þess að aðrar megi lifa, muni ekki reynast betur en þær ráðstafanir, er náttúran gerir sjálf í framkvæmdinni. Auk þess er það ekkert efamál, að æðarfuglinum stendur ekkert minni hætta af mönnunum en vargfugli, bæði af skotum og eggjatínslu.

Hv. flm. frv. sagði um afstöðu okkar í minni hl. allshn., að blindur talaði um lit. Ég vil biðja hv. flm. að gæta þess, að þetta er máttlaus röksemd, er sýnir rökþrot hans. Ef hv. þm. hefði haft augun eins vel opin og ég og hv. 7. landsk., þá hefði honum aldrei til hugar komið að bera þetta frv. fram. Hann langar til að taka upp hlutverk vargfuglsins og hervæðast gegn svartbak og hrafni. En náttúruhneigðir þessa manns verka ekki vel á mig eða hv. 7. landsk. Okkur langar ekki til að veita mönnum verðlaun til að mannskaða sig á bardögum við svartbak og hrafn. Enginn hv. þingmanna mun líta á þetta mál öðruvísi en sem gaman, og mér dettur ekki í hug að ætla, að nokkur veiti þessu frv. tilstyrk sinn. Sóma þingsins er bezt borgið með því að koma þessu frv. fyrir kattarnef.