19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (3300)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Pálmi Hannesson:

Það er aðeins aths. — Mig undrar, að hv. 6. þm. Reykv. skuli vera faðir að þessu merkilega frv., hann, sem valdi sér það góða hlutskipti með öðrum þm., þar sem súlan var annarsvegar. Nú sé ég mér til undrunar, að hér er ætlazt til að hefja allsherjar herferð á móti tveimur fuglategundum, hrafninum og svartbaknum. Um hrafninn er vitað, að hann er ekki næsta mikill skaðafugl í æðarvarpi; hann er landskunnur og bæjarprýði um land allt. Veiðibjallan er aftur á móti mikill vargur í varplöndum, en það mun verða erfitt að útrýma fuglinum úr öllum varplöndum hvarvetna um landið. Auk þess er kunnugt, að hún verpir uppi um fjöll og á flatlendum hálsum, þar sem talsvert erfitt er að komast að henni. Það er mikill greinarmunur gerandi á því, hvort menn stugga burt og eyða vargfugli í námunda við varplönd eða hvort á að sækjast eftir þeim úti um gervallt landið. Hvaða ójöfnuð skyldi hrafngrey lengst inni á Jökuldal gera í varpi úti við sjó á Austurlandi? Hví má ekki leyfa honum að hafast þar við eins og hefir verið gert frá ómunatíð? Það er enginn vafi, að íslenzkur almenningur hefir fugla landsins kærari en alþýða nokkurs annars lands. Er það skýr vottur um menningu þjóðarinnar. Henni þykir vænt um fuglana. Þeir eru friðaðir í vitund hennar, enginn þó eins og krummi. Hann er næstur manninum og hefir alizt upp með honum frá blautu barnsbeini. Eins og ég álít sjálfsagt að bægja hverskonar vargi frá varplöndum, eins álít ég fjarstæðu að fara að elta þessa fugla, hvar sem þeir kunna að finnast uppi um fjöll og heiðar.

Eins og lýst var yfir í d. fyrir nokkrum dögum, þá er verið að rannsaka fuglafriðunarlögin í heild, og er gert ráð fyrir, að frv. um það efni verði borið fram á næsta Alþingi. Ennfremur vil ég upplýsa, að rannsóknarnefnd ríkisins hefir ákveðið að taka æðarvarpið til nákvæmrar rannsóknar, og þá fyrst og fremst, hvað gera beri til þess að sjá þessum atvinnuvegi borgið. Vænti ég, að þeim rannsóknum verði lokið á næsta ári, og get ég ekki séð, að þetta herferðarmál megi ekki doka við þangað til þær till. liggja fyrir.

Af þessum tveimur ástæðum vil ég leyfa mér að bera fram um þetta mál dagskrártill., svo hljóðandi:

„Með því að kunnugt er,

1. að verið er að endursemja fuglafriðunarlögin, og

2. að rannsóknarnefnd ríkisins ætlar að rannsaka skilyrði til þess að auka æðarvarp í landinu, telur deildin ekki ástæðu til að lögfesta að svo komnu frv. til 1. um eyðingu svartbaks og hrafns, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“