03.01.1940
Efri deild: 100. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (3314)

144. mál, eyðing svartbaks og hrafns

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Þó að það sé ólíklegt, að þetta frv. verði að l. nú á þinginu, þá vil ég samt sem áður fylgja því úr garði með fáeinum orðum. Það er búið að ganga í gegnum Nd. og var samþ. þar. Ég vil vekja athygli hv. allshn., sem kemur til að fjalla um þetta mál, á því, að það þarf mikla athugun og sennilega að gerbreytast til þess að hægt sé að samþ. það. Ég held, að fyrst og fremst sé mjög mikill vafi á því, hvað það eigi lengi að gilda. En í síðustu gr. þessa frv. segir, að öðrum l. um svipað efni skuli frestað meðan þessi l. eru í gildi. Um leið verður að fresta samþykktum, sem gerðar hafa verið samkv. l. frá 1936, og hætta þær þá að verka þann tíma, sem l. eru í gildi. Í upphafi 1. gr. er talað um, að á næstu 2 árum eftir að þessi l. öðlast gildi skuli greiða sérstakt gjald fyrir að drepa hrafn og veiðibjöllu, og í 2. gr. er ákvæði um, að dúntekjumenn skuli gjalda hluta af sínum tekjum í 5 ár. Nú er spursmálið, hvort það eigi að verka í 2 eða 5 ár. Eftir ákvæðinu um skatt dúntekjumanna lítur út fyrir, að þau eigi að gilda í 5 ár, en það er þó ekki meining þeirra manna, sem fluttu frv. Það eitt, að þurfa að sanna fyrir hreppstjórum, sýslumönnum og bæjarfógetum, að fugl hafi verið drepinn, og einn getur sýnt hreppstjóra vænginn, annar sýslumanni nefið, gæti komið til með að kosta ríkissjóð margar krónur, ef engin regla er um, á hvern hátt á að sanna drápið. Svo er ennfremur sagt í frv., að endurgreiða skuli ríkissjóði þeir hreppar, þar sem fuglinn sé drepinn. Nú gæti orðið þræta um þetta, t. d. gæti Reykvíkingur sagzt hafa farið upp á Kjalarnes og drepið vargfugl, og þá yrði sá hreppur að endurgreiða í ríkissjóð fyrir þann fugl. En ég er viss um, að það gæti orðið nokkuð erfitt fyrir innheimtumann ríkissjóðs að fá endurgreiðslu þaðan. Ég held, að það sé varla hægt að samþ. frv. án ýtarlegrar endurskoðunar og athugunar, sem ekki verður framkvæmd á svo skömmum tíma, þar sem nú er komið að þinglokum. Ég vildi benda nefndinni á þetta, en svo getur hún farið allra sinna ferða fyrir því og gert það, sem henni finnst réttast.