06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (3321)

147. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti! Þetta frv. á þskj. 372 er lítið fyrirferðar, því með því er aðeins farið fram á breyt. á 3. gr. l. nr. 27 13. jan. 1938, um vátryggingarfélög fyrir vélbáta. Í 3. málsgr. 3. gr. þessara l. er ákvæði um, að heimilt sé vátryggingarfélögum að taka til vátryggingar skip innan við 150 smálestir brúttó. Hér er farið fram á, að smálestatalan sé hækkuð úr 150 upp í 250 smálestir.

Ég þykist hafa rökstutt nauðsyn þessarar breyt. í grg. frv., en þó skal ég taka það fram, að frv. er fram komið eftir áskorun fjórðungsþings fiskideilda Norðlendingafjórðungs, sem haldið var á Akureyri í fyrra mánuði.

Þetta frv. er aðeins endurtekning á þeirri breyt. á l., sem ég kom fram með á þinginu í fyrra, en þá var frv. fellt með eins atkv. mun. Það, sem Norðlendingar bera fyrir brjósti, er, að það eru nokkur skip, sem eru að stærð milli 150 og 250 smálestir brúttó, sem eigendur þeirra eiga mjög erfitt, ef ekki alveg ókleift, að fá vátryggð. Að vísu er hægt að fá þau vátryggð með afarkostum í Sjóvátryggingarfélagi Íslands, sem eru í því fólgnir, að ekki er hægt að fá þau tryggð nema fyrir algerum skiptapa. Í öðru lagi er ekki hægt að tryggja skipin nema um langan tíma. En þessi skip eru aðeins notuð 2–3 mánuði til síldveiða á ári og lögð svo í skipakví eða sett upp á land annan tíma. Þykir því eigendum þeirra skipa of mikið að fá þau tryggð allt árið eða hálft árið, en geta ekki fengið þau tryggð aðeins þann tíma, sem þau eru á floti.

Ef þetta næði framgangi, væri eðlilegt, að vátryggingarfélög hefðu sérsamninga um vátryggingu þessara skipa. Það er þannig, að á Akureyri eru tvö línuveiðaskip, sem svona er ástatt um, en ég hygg, að á Siglufirði séu þar fleiri. Það eru þannig nokkur skip, sem ekki falla undir þessi heimildarákvæði 3. gr., sem ég fer fram á, að hv. d. líti á sem sanngirniskröfu í þessu máli, að breytt verði skv. minni till.

Ég vona, að þetta frv. nái fram að ganga og verði vísað til 2. umr. og sjútvn.