15.12.1939
Neðri deild: 84. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (3329)

156. mál, efnahagsreikningar

*Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti! Ég skil það vel, að hv. þdm. séu tregir til að samþ., að þetta mál megi koma fyrir aftur. Það var borið fram fyrir ári síðan, sent til Ed. og strandaði þar í n. Vegna þess að hv. þm. er kunnugt um innihald þessa frv., ætla ég hér ekki að fjölyrða um, hvað það hefir inni að halda. Tilgangur þess er, að þjóðinni gefist möguleikar á að fylgjast með, hvernig ýms fyrirtæki verji fé sínu, hvernig þeim er stjórnað og hvernig efnahagur þeirra er. Vitanlega er sérstaklega nauðsynlegt, að frv. í þessa átt sé samþ., með tilliti til þeirra stóru skulda, sem togarafélög og önnur fyrirtæki eiga í bönkum hér. Almennt viðhorf manna er þannig, að það er langt frá því, að almenningur viti, hvernig efnahagur þeirra er. Síðan þetta frv. var borið fram, hafa orðið miklar breytingar á stjórnmálunum innanlands, þannig að nú er enn meiri ástæða til, að frv. eins og þetta verði samþ. Þá er vitanlegt, að Framsfl. bar fyrst fram frv. og var mjög áfram um það, að meira eftirlit fengist með skuldugum fyrirtækjum í landinu, og flm., sem þá komu með frv., fluttu rök fyrir því, að þjóðin yrði að fá tækifæri til þess að fylgjast betur með. En margt hefir gerzt síðan, og einmitt þessi flokkur, sem barðist fyrir því þá, hefir nú gert bandalag við þá flokka, sem þessum skuldugu fyrirtækjum stjórna, um myndun ríkisstjórnar. Þess vegna er meiri ástæða til, að þjóðin heimti frásagnir um, hvernig reikningsfærslan er og „statusinn“ hjá þessum skuldugu fyrirtækjum.

Þá hefir það gerzt í millitíð, sem réttlætir þetta ennþá meira. Stórskattar eru lagðir á landslýð, til þess að gera afstöðu þessara fyrirtækja betri, gengi krónunnar fellt 2 sinnum á einu ári, til þess að veita stórfé til útflytjenda og togarafélaga. Ennfremur öll togarafélögin gerð skattfrjáls. Þar við bætist, að vegna stríðsins hækka útflutningsafurðir í verði og skapa mikinn verzlunararð. Þetta eru næg rök fyrir því, að nauðsynlegt væri, að þjóðin fengi að vita, hvernig efnahagur fyrirtækjanna er. Hafi þetta frv. verið nauðsynlegt 1938, þá er það ennþá nauðsynlegra nú.

Við höfum borið það fram óbreytt eins og það var, þegar það fór til Ed. Við höfum borið það fram til þess að þeim mönnum, sem þá fylgdu þessu, gefist kostur á að sýna, hvort þeir standa enn með frv. En þær breytingar hafa gerzt, sem frá sjónarmiði þeirra manna, sem standa með frv., gera það nauðsynlegt að birta þjóðinni hugarfar flm. frv. með afgreiðslu þessa máls. Ég býst við, að meðferð þessa máls í þinginu komi til með að sýna, hversu hugir manna hafa breytzt, og er ekki langt að leita orsakanna. Ég hygg, að það komi strax í ljós, hvort áhugi manna, sem áður börðust fyrir því, að fólk fengi að vita um efnahag fyrirtækja, hafi dofnað, og vil ég gefa þeim tækifæri til að sýna áhuga sinn á gangi þessa máls.

Ég óska, að þessari umr. lokinni, að frv. verði vísað til 2. umr. og til fjhn.