19.12.1939
Neðri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (3340)

158. mál, mæðiveikin

Skúli Guðmundsson:

Ég hefi borið fram brtt. við frv. á þskj. 508, og er þar í raun og veru ekki nema ein efnisbreyt. Hitt eru formsbreytingar, sem mér var bent á af skrifstofu Alþingis, að þyrftu að fylgja með, vegna þess, að þau l., sem hér er gert ráð fyrir að breyta, eru tvenn: 1. frá 1938 og breytingar, sem gerðar voru á þeim á fyrri hluta þessa þings. Brtt. við 1., 2. og 3. gr. l. eru því einungis formsbreytingar. En við 4. gr. frv. ber ég fram brtt., sem snertir 22. gr. l. Vil ég hafa þar ákvæði um, að bændum, sem hafa beðið tjón af mæðiveikinni og hafa sérstaklega erfiðar ástæður, verði veittur hlutfallslega meiri styrkur en öðrum, sem við betri ástæður eiga að búa. Í l. er að vísu tekið fram, að við úthlutun skuli hafa hliðsjón af afkomumöguleikum manna, en þó mun ekki hafa verið talið, að framkvæmdan. hefði heimild til að lækka styrk eða afnema til þeirra, sem betur eru stæðir, og verja því, sem þannig sparaðist, til þeirra, sem hafa lakari ástæður. Samkv. minni till. á að orða 22. gr. l. þannig, að skipta skuli styrktarfénu í hlutfalli við það tjón, er menn hafa orðið fyrir af völdum mæðiveikinnar, en þó skuli þeir, er hafa erfiðastar ástæður, fá hlutfallslega meira, en dregið aftur af hinum, sem svo eru efnum búnir, að telja megi, að þeir geti komið sér upp nýjum bústofni án aðstoðar.

Eins og kunnugt er, á það að vera tilgangur þessara styrkveitinga að koma í veg fyrir, að menn þurfi að hrekjast frá búum sínum. Hinsvegar er ekki hægt að bæta mönnum nema lítinn hluta af því tjóni, er þeir hafa orðið fyrir, og þeir, sem örðugasta hafa aðstöðuna, geta því ekki haldið áfram búskap, ef þeir fá ekki meira styrktarfé en hinir, sem betur eru á vegi staddir. Ég tel því, að ekki verði náð tilgangi þessara l. nema í þau verði bætt slíku ákvæði sem í minni brtt. felst. Um þetta er að vísu erfitt að setja ákveðnar reglur, og verður það því að vera verk framkvæmdan. að meta í hvert sinn, hvar þörfin er mest.

Brtt. við 5. gr. er aðeins orðalagsbreyting, og síðasta brtt. er um það að breyta fyrirsögn frv., vegna þess að hér ræðir um breytingar á tvennum l., bæði f. frá 1938 og 1. frá því í maí í vor. Vona ég, að hv. d. geti fallizt á þetta.