28.02.1939
Efri deild: 7. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (3348)

19. mál, sparisjóðir

*Flm. (Árni Jónsson):

Herra forseti! Ég tel enga þörf á því að hafa langa framsögu og get vísað til hinnar ýtarlegu grg., sem fylgir frv. Þetta er fyrsta frv. frá milliþn. í bankamálum, sem kosin var 1937, á fyrra þinginu, og hefði átt vel við, að eitthvað hefði verið skýrt frá störfum n., en af því að formaður hennar, hv. fyrri þm. Eyf., er veikur, verður það að bíða þess, að hann komi aftur í d., en það mun verða seinni part vikunnar.

Sparisjóðslögin, sem nú gilda, að mestu leyti óbreytt, eru frá 1915, og ræður af líkum, að full þörf muni vera að endurskoða þau, eftir þau miklu stakkaskipti, sem þjóðlíf vort hefir tekið á þessu tímabili.

Aðalefni frv. þessa er tekið úr gömlu sparisjóðslögunum, en þó hafa verið gerðar nokkrar breyt. á þeim og allmiklu aukið við. Þá hefir verið farið yfir sparisjóðslöggjöf nágrannalanda vorra og tekið upp þaðan það, sem við þótti eiga hér. Það er einróma álit n., að sparisjóðslöggjöfina eigi að miða við það, að ávaxta sparifé landsmanna á sem hyggilegastan hátt, og nýrri ákvæði frv. eru sett með það fyrir augum í fyrsta lagi, að sú upphæð, sem verja megi til útlána, sé miðuð við eigið fé sjóðsins. Þá er það einnig í sömu átt, að takmarkað sé, hvað lána megi einstökum viðskiptamönnum sparisjóðsins eða fleirum, sem eru fjárhagslega tengdir, og í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að stofnaður verði tryggingarsjóður sparisjóðanna, sem geti hlaupið undir bagga með þeim, t. d. ef óhöpp ber að höndum.

Ég mun þá ekki fjölyrða um frv., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.