11.04.1939
Efri deild: 37. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (3366)

67. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Það er nú í 3. skipti, sem ég flyt hérna þetta litla frv. Ég hefi áður fært rök að því, hver nauðsyn sé til þess að gera þessar breytingar. Og þar sem ekki er um meira mál að ræða, tel ég ekki nauðsynlegt að fjölyrða um það. Í bæði skiptin áður hefir málinu verið vísað til nefndar, en í hvorugt skiptið fékk það afgreiðslu frá nefnd. Annars geri ég ráð fyrir, að hv. þdm. sjái, hve mikla þýðingu það hefir, bæði fyrir berklasjúklingana sjálfa og fyrir sveitar- og bæjarfélögin, sem oft er mjög þungur baggi að því að þurfa að greiða þennan fimmta hluta kostnaðar. Nú hefir verið lagt fyrir Alþingi erindi frá Sambandi íslenzkra berklasjúklinga, sem stofnað hefir verið síðan ég flutti þetta frv. seinast. Þar er farið fram á, að lögunum sé breytt í svipaða átt og hér er lagt til, og færð fyrir því ýtarleg rök.

Nú vænti ég þess, að málinu verði vísað til allshn., og óska þess, að hún taki það fyrir, eins og nú er enn meiri ástæða til en fyrr, og að það fái velviljaða afgreiðslu í þessari hv. deild.