13.04.1939
Efri deild: 38. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (3371)

68. mál, jarðræktarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Án þess að ganga inn á frv. í aðalatriðum, þá vil ég leyfa mér að benda hv. flm. og hv. d. á, að þegar jarðræktarl. voru til meðferðar í Nd. 1936, þá lýsti hæstv. landbrb. því yfir, að hann myndi beita sér fyrir því, að jarðræktarl. í heild yrðu tekin til endurskoðunar, þegar búið væri að kjósa eftir þeim á búnaðarþing og heyja það eitthvað með nýju fulltrúunum. Í samræmi við þessa yfirlýsingu var á búnaðarþinginu í vetur — en það var fyrsta þing eftir breyt. l. — kosin 3 manna nefnd til að endurskoða öll l., og henni var ætlað að koma með till. fyrir næsta búnaðarþing, sem þá koma til umræðu þar. Ef þær verða samþ., þá verða þær sendar stjórnarráðinu, sem þá lætur athuga þær og leggja þær fyrir Alþingi.

Ég held því, að það sé ekki tímabært að beita sér fyrir breyt. á þessu núna, heldur sé rétt að bíða eftir því, hvað nefndin gerir. Og án þess að ég vilji leggja á móti því, að málið fari til landbn., sem mun þá væntanlega vísa því frá með rökst. dagskrá, þá vildi ég benda á þetta strax.