22.04.1939
Efri deild: 47. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (3378)

87. mál, meðalmeðgjöf og tryggingarbætur

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Það var viðurkennt, þegar 1. um gengisskráningu og ráðstafanir í sambandi við hana voru samþ., að það þyrftu að koma til einhverjar bætur handa þeim fátækustu. Þetta var viðurkennt, enda þótt þær bætur yrðu harla litlar og aðeins launabætur handa þeim, sem taldir voru eiga við lélegust laun að búa. En það hefir brugðið svo einkennilega við, að þeim allra fátækustu hefir verið gleymt, því fólki, sem lifir á opinberri aðstoð, ellilaunum eða örorkubótum, og fátækum mæðrum, sem hafa fyrir börnum að sjá. En það er alveg augljóst mál, að ef það eru nokkrir, sem þurfa hjálpar við eða að fá uppbætur vegna aukins framfærslukostnaðar, sem af gengisfalli hinnar íslenzku krónu leiðir, þá er það þetta fólk.

Meðalmeðgjöf er nú samkv. auglýsingu atvmrn. frá 7. okt. 1937, sem gildir til 14. maí 1940, hæst 500 kr. á ári. Elli- og örorkubætur munu varla vera meira en 50 kr. á mán. hjá þeim, sem mest hafa og ætlazt er til að þurfi að lifa eingöngu á þessari opinberu aðstoð. Það sér hver maður, að þessi upphæð er ekki til þess að lifa á eins og hún er nú, hvað þá ef hún með gengislækkun krónunnar og þar af leiðandi auknum framfærslukostnaði á að lækka niður í jafngildi 40 ísl. kr. áður en genginu var breytt. Meðalmeðgjöf lækkar þá niður í 400 kr. úr því, sem hún var áður en genginu var breytt.

Í raun og veru er þetta svo mikið nauðsynjamál og svo aðkallandi, að það má ekki dragast reitt, að gangskör sé gerð að því að hækka meðlögin og þessar tryggingarbætur. Samkv. frv. er ekki neitt því til fyrirstöðu, að meðlögin séu hækkuð strax, þar sem atvmrn. er gefin heimild til samkv. þessu frv. að gefa strax út nýja auglýsingu, þar sem ákveðin sé hækkun á meðalmeðgjöf frá því, sem hún var í auglýsingunni frá 1937. En hinsvegar sá ég mér ekki fært að láta þær bætur, sem til greina koma samkv. l. um alþýðutryggingar, hækka fyrr en 1. júlí, þar sem ekki munu liggja fyrir reikningar yfir framfærslukostnað fyrr en þá.

Ríkissjóður þarf ekki að hafa önnur útgjöld af þessu frv., ef að l. verður, en þau, að framlag hans til lífeyrissjóðs þarf að hækka hlutfallslega. Hann getur að sínum parti hækkað sitt framlag, þannig, að til kasta ríkissjóðs komi ekki annað en hækkun, sem nemur allt að 10% af 1/3 af þeirri upphæð, sem úthlutað var til ellilauna og örorkubóta á síðastl. ári. Þá var ákveðið til úthlutunar 1500 þús. kr. alls, svo það er 10% af 500 þús. kr., ef reiknað er með hluta lífeyrissjóðs öllum, en framlag ríkissjóðs er aðeins 200 þús. kr.

Hvað slysabætur og dánarbætur snertir, þá er hægt samkv. l. um alþýðutryggingar að hækka iðgjöldin hvenær sem er, og mun það, ef gert er, ganga í gildi um næsta nýár. Ef það sýndi sig, að nauðsynlegt væri að gera það vegna þessarar lagabreyt., þá yrði að gera það, og verður það athugað af tryggingarstofnuninni, hvort nauðsyn ber til þess.

Ég álít, að þetta mál sé svo mikið nauðsynjamál, að það sé óforsvaranlegt, að það fái ekki afgreiðslu á þessu þingi. Ég sé, að lögð hafa verið fram í dag 3 lagafrv., sem mun vera ætlazt til, að gangi fram á þessu þingi, en ég álít, að þetta mál sé ekki þýðingarminna en þau. Ég álít einmitt, að þetta sé þýðingarmesta málið, það mál, sem er mest aðkallandi að nái afgreiðslu nú. Ég vil þess vegna fastlega mælast til þess, að þetta mál fái að vera samferða þeim öðrum málum, sem ætlað er að ganga í gegn, áður en þingi er frestað, og það verði afgr. með nauðsynlegum afbrigðum.

Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, því ég held, að málið sé svo einfalt, að það þurfi ekki að hafa um það langt mál. Ég held, að það sé ekki nauðsynlegt, að málið fari til n., en ef það tefur ekki afgreiðslu þess, þá hefi ég ekkert á móti því.