08.11.1939
Efri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (3382)

104. mál, skattundanþága af stríðsáhættuþóknun

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Síðan í vor hafa gerzt þeir atburðir, að l. um gengisskráningu o. fl. hafa reynzt óframkvæmanleg. Það hefir orðið að breyta þeim með bráðabirgðal., og að mínum dómi ber nauðsyn til að breyta þeim enn svo mikið, að lítið verði eftir af þeim. M. a. er ekki unnt að komast hjá því að veita sjómönnum rétt til stríðsáhættuþóknunar og sérstakrar stríðstryggingar, og gefa aðilum rétt til að semja um það. Samningar hafa nú tekizt milli aðila um þessi mál. En þó að þessir samningar hafi bætt úr brýnni þörf, þá mun þó sú skoðun vera ríkjandi meðal sjómanna, að þessi þóknun sé mjög ófullnægjandi, en út í það mun ég ekki fara. Þó myndi verða enn minna úr þeirri þóknun, ef sjómenn ættu að greiða af henni alla skatta til ríkis og bæjarfélaga.

Oft hefir verið um það rætt, að sjómenn okkar Íslendinga væru okkar einu hermenn, enda er það svo, að þeir leggja líf sitt í hættu fyrir landið sitt, engu síður en hermenn ófriðarþjóða. Þeir leggja lífið í hættu til þess að afla lífsbjargar fyrir íslenzku þjóðina, þegar mest liggur við. Án þessarar lífshættulegu starfsemi væri ekki unnt að lifa á þessu landi meðan stríðið stendur yfir. Enginn Íslendingur efast um það, að í þessu stríði er barizt fyrir góðum málstað. Enginn Íslendingur efast um þá þakkarskuld, sem íslenzka þjóðin stendur í við þessa menn. Þetta ætti að geta orðið til þess, að mönnum skiljist, að ríkinu ber að hlynna að því, að kjör þeirra gætu orðið sem bærilegust. En þá mætti ekki minna vera en að sjómennirnir fengju að halda þeirri áhættuþóknun óskertri, sem þeir hafa fengið samkv. þeim samningum, er gerðir hafa verið, en þyrftu ekki að greiða af henni skatta til hins opinbera. Ég vona þess vegna, að þetta mál fái góðar undirtektir í þessari hv. d., og tel ekki þörf á að fara um þetta fleiri orðum.