08.11.1939
Efri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3386)

104. mál, skattundanþága af stríðsáhættuþóknun

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég ætla aðeins að gera stutta aths. Hv. flm. þessa frv. virðist ekki vera af baki dottinn með það, að nokkurrar óánægju hafi kennt fyrst í stað meðal togarasjómanna út af stríðsáhættuþóknuninni. En ég vil bæta því við, að sú óánægja var blásin upp af flokksmönnum hans, og að hún stóð aðeins eina viku. Einn af flokksmönnum hans hefir reynt að nota þetta mál á mjög rangan og óviðeigandi hátt. (BrB: Það er óhætt að nefna nöfn). Nei, ég geri það ekki um þá menn, sem ekki eru viðstaddir til að svara fyrir sig. Hv. 1. landsk. sagði, að ég gæti ekki borið um þetta, þar eð fundur hefði ekki verið haldinn í Sjómannafélagi Reykjavíkur. En ég get gefið þær upplýsingar, að það félag hélt fund í gærkvöldi, og sátu hann um 150 menn. Þar var lauslega rætt um stríðsáhættuþóknunina, og voru allir sammála um, að hún væri mjög gagnleg, og stj. félagsins sætti engum ávítum fyrir meðferð sína á því máli. Ég býst við, að hv. flm. komist við nánari íhugun á þá skoðun, að sjómenn okkar Íslendinga séu ekki lakar settir en sjómenn annara þjóða með tilliti til þessarar þóknunar fyrir þá, er sigla um stríðshættusvæðin. Fiskimenn í Noregi hafa ekki fengið neina stríðsáhættuþóknun, og í Danmörku hafa þeir leyft sér að leggja niður sínar fiskiveiðar og snúið sér til ríkisstj. með beiðni um styrk til að geta lifað.

Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, sem sagt hefir verið um meðferð þessa frv. Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi að fara til n., og tel líklegt, að við 2. umr. þessa frv. komi fram ýmislegt fleira en nú. Ég hygg, að það verði nokkuð skiptar skoðanir um, hvort þessi áhættuþóknun skuli vera skattfrjáls að öllu leyti, og við 2. umr. mun koma í ljós, hvort hv. Ed. getur fallizt á það, eða samþ. að hún verði skattfrjáls að hálfu leyti.