10.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (3390)

108. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

*Magnús Jónsson:

Ég vil ekki fresta til 2. umr. að segja álit mitt á þessu frv., þar sem það er flutt af nefnd og óvíst, að það gangi til nefndar aftur.

Það eru æðimörg ár síðan því var fyrst hreyft, að við ættum að ganga í Bernarsambandið. En ég get ekki varizt þeirri hugsun, að við það höfum við Íslendingar öllu að tapa og ekkert að vinna. Það má náttúrlega deila um siðferðislegan rétt okkar til þess að hagnast á því að standa utan við þessi alþjóðasamtök og nota erlend verk án leyfis. En ef svo er, að erlendir höfundar geti ekki hvort sem er vænzt borgunar héðan fyrir verk sín, hverju er þá af þeim stolið? — Nei, eini „þjófnaðurinn“, sem hér gæti verið um að ræða, er, ef við tækjum af einhverjum höfundum okkar þá borgun, sem þeir ættu að geta fengið fyrir verk sín erlendis. Nú hefir það venjulega verið svo, að það eru ekki nema stór fyrirtæki, sem leita alla leið út til Íslands eftir ritum til að þýða og gefa út. Þau spyrja ekkert um það, hvort þau geti samkv. lögum komizt hjá að borga höfundinum; það munar þau svo sem engu. Því get ég ekki séð, að þetta gæti verið höfundum okkar svo stórt hagsmunamál, né á hinn bóginn þjóðinni vansi, að við getum fyrir það afsalað okkur því að njóta, eins og nú er, ókeypis aðgangs að bókmenntum allrar veraldarinnar, — móti þeim örfáu bókum, sem hér eru samdar. Það er rétt, að með þessu frv. er ekki beinlínis um það að ræða að ganga í Bernarsambandið. Þetta gengur út á það eitt að veita íslenzkum skáldum rétt inn á við. Ég býst við, að hér yrði aðallega um útvarpið að ræða, því að ég skil ekki í því, að menn færu að leita leyfis um að mega lesa smásögur á samkomum eða leika smálag eftir íslenzkan tónlagasmið. En ef útvarpið sem ríkisstofnun teldi sér ekki annað sæmilegt en greiða nokkuð fyrir að fá að flytja slík verk, án þess að sérstök lagaákvæði þyrftu að koma til, þá getur það vitanlega tekið upp þá reglu. Þetta gæti reyndar valdið erfiðleikum, ef höfundarnir gerðu sig mjög erfiða í samningum, en til þess held ég ekki, að myndi koma. Ég teldi sanngjarnt, að útvarpið gerði samninga við Bandalag listamanna um þóknun fyrir slíkt.

Ég tel því að öllu athuguðu hæpið að samþ. þetta frv.