13.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (3392)

108. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

*Magnús Jónsson:

Ég hefi einu sinni reynt það, að erlendur rithöfundur hefir leyft mér að þýða bók eftir sig án þess að taka annað fyrir en nokkur eintök. En það gæti kostað talsvert stapp, ef Íslendingar ættu alltaf að þurfa að fá leyfi til að mega þýða útlendar bækur. Mér er kunnugt um, að menn hafa hætt við að þýða allmargar bækur og tímaritsgreinar, af því að höfundarnir höfðu sett upp fyrir leyfið það, sem þeir kölluðu lág ritlaun, en útilokuðu það samt, að hægt væri að greiða þau. Oft er ekki heldur hægt að vita, hvor á að veita leyfið, höfundur eða forlagið. Mér er kunnugt um það, að Norðurlandarithöfundar hafa sínar aðaltekjur af þýðingum. Þannig er a. m. k. um norska rithöfunda. Norskur bókamarkaður er ekki svo stór, að menn geti að jafnaði haft sæmilegar tekjur af því að skrifa fyrir hann. Þetta kemur líka fram í þeirri grundvallarreglu enska rithöfundarins að taka alltaf laun fyrir þýðingarleyfi, þó að það væri hverfandi í þetta sinn.

En ég heyri það á hæstv. ráðh., að fyrir honum er aðalatriðið að fá vernd innanlands. Og ég vil skjóta því til hv. n., að hún taki málið til athugunar á ný og segi álit sitt um það, hvort nota eigi þessa lagabreytingu til að ganga í Bernarsambandið eða ekki.

Ég vil benda hv. d. á það, að hér standa í rauninni listamenn á móti listamönnum. Píanó- eða fiðluleikari til dæmis er engu síður listamaður en tónskáldið, og það getur verið allt eins erfitt fyrir hann að lifa á sinni list. Það mætti vel hugsa sér, að með ráðstöfunum, sem ykju rétt tónskáldsins, væri skertur réttur hins, sem vill birta fyrir þjóðina verk hins fyrrnefnda, og réttur hljóðfæraleikarans verður að teljast fullt eins mikill, því að hann er einmitt að víðfrægja hinn. Og í flestum tilfellum hafa íslenzkir tónlagasmiðir list sína algerlega í hjáverkum. Tónleikar hér á landi eru svo miklum erfiðleikum háðir fyrir listamennina, að ekki er á það bætandi, þannig að þeir væru skyldaðir til að borga höfundi fyrir að fá að fara með verk hans. Ég tel að vísu, að ekki myndi vera hætta á, að þetta færi í neina stífni, en hinsvegar gætu tónlagahöfundar aldrei haft neitt verulegt upp úr þessu. Það væri helzt útvarpið, sem gæti samið við höfunda um nokkra þóknun. Hér er allt svo ólíkt því, sem er í öðrum löndum, þar sem listamenn, eins og hljóðfæraleikarar, geta farið um og rakað saman stórfé.

Ég vildi, að þetta væri athugað gaumgæfilega, áður en frv. yrði samþ., því að hér standa í rauninni listamenn á móti listamönnum, eins og ég sagði áðan.