22.11.1939
Efri deild: 66. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (3397)

116. mál, stríðsslysatrygging

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti! Frv. þetta er ekki óskylt því frv., er var hér til umr. áðan. Tilefni þess er samningur sá, er gerður var í október við útgerðarmenn, félög verzlunarskipanna og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda af félögum sjómanna. Um leið og samið var um stríðsáhættuþóknun, sem hér var um rætt í gær, var samið um dánartryggingu og örorkutryggingu fyrir sjómenn, er til útlanda sigla. Það var ósk sjómanna, að trygging þessi yrði ekki lægri en samskonar tryggingar á Norðurlöndum, þar sem þær væru lægstar. En eins og kunnugt er, nema slysa- og dánartryggingar vinnandi manna á Norðurlöndum talsvert miklu meira en hér. Þó er það regla þar, að tryggingar fyrir menn, sem sigla á stríðsáhættusvæðum, eru miklu hærri en venjulegar tryggingar. Regla sú, sem hér er látin gilda um verzlunarskip, er lík þeirri dönsku, þó að ekki sé hægt að hafa hana eins, því að í Danmörku grípur þessi sérstaka slysatrygging inn í hina almennu slysatryggingu, sem er þar með öðrum hætti en hér. Þeim Brynjólfi Stefánssyni framkvæmdastjóra og Jóni Blöndal hagfræðingi var falið að finna út, hvernig sú trygging liti út á Norðurlöndum, ef hún væri reiknuð út í fjárhæðum, og taldist þeim til, að í Danmörku væri lægst útborgun, og bæri því að leggja til grundvallar það fyrirkomulag, sem þar gildir. Af samningi, sem er fylgiskjal með frv. á þskj. 289, má sjá, hvernig þessu er fyrir komið.

Þegar til þess kom að semja um slíkar tryggingar á togaraflotanum, vildi svo til, að yfirmenn á þeim skipum höfðu samið við atvinnurekendur um dánarbætur, og var sú upphæð jafnframt örorkutrygging, en hún var nokkru lægri en hér er gert ráð fyrir. Svo þegar til þess kom að semja fyrir undirmenn skipanna, fórum við fram á, að sama fyrirkomulag yrði látið ná til þeirra, en útgerðarmenn töldu vandkvæði á því, þar sem þeir væru bundnir við endurtryggingar í Bretlandi. En samkomulag varð þó um 15000 króna tryggingarupphæð á fiskiflotanum, án tillits til þess, hvort um væri að ræða fjölskyldumenn eða einhleypinga. Hér er líka endurtrygging eftir enskri reglu, sem er öðruvísi en hér. Er þar borguð viss upphæð fyrir ákveðna limi. Hinsvegar eru dagpeningagreiðslur þar ef til vill hærri fyrir öryrkja en á Norðurlöndum og hér, því að þar má greiða allt að 10 kr. á dag í allt að 12 mánuði, ef maðurinn er óvinnufær svo langan tíma. Ég verð að segja, að hér er enginn greinarmunur; mannslífið er jafndýrmætt, á hvaða skipum sem siglt er. Það er því eðlilegt, að þessi trygging sé ein og hin sama fyrir alla, sem sigla á stríðshættusvæðunum. Ég hefi því leyft mér að bera fram till. um að samræma þessar tvær tryggingar, eins og sjá má á þskj. 300. Þessi trygging verður ekki útborguð eftir reglum, sem nú almennt gilda um slysatryggingu ríkisins, nema að vissu leyti. Þess vegna hefi ég leyft mér að gera þennan stiga, sem er í 3. gr. frv., hvernig eigi að borga út, að láta það ná jafnt til einhleypra sem fjölskyldumanna, og er það í fullu samræmi við samkomulagið fyrir verzlunarskip. Ég gæti látið mér detta í hug, að einhver segði, að ekki væri þörf á þessu. Í fyrsta lagi hefir verið færð fram ástæða til að samræma með l. þessar tryggingar, en eigi að síður ætti að vera kleift að fá frv. um stríðstryggingu, þar sem þessi trygging er í innlendum höndum. Aðeins tryggingin ræður í þessum málum. Er hægt að koma því fyrir, meðan þyrfti eingöngu að binda sig við erlend vátryggingarfélög. Í öðru lagi er færð fram ástæða fyrir því, að hér á Norðurlöndum og víðar eru slíkar tryggingar lögbundnar. Öll Norðurlöndin, að Finnlandi meðtöldu, og ég hefi nýlega fengið vissu fyrir því, að Niðurlöndin, Belgía og Holland, hafa einnig þessa stríðstryggingu lögbundna. Öll þessi lönd telja nauðsynlegt, að það sé ekki undir tilviljun komið, að þessir menn séu tryggðir, heldur bundið lögum. Það vill svo til, að í Danmörku var byrjað á þessum tryggingum á svipaðan hátt og átti sér stað hér um samkomulagið milli farmanna og útgerðarmanna á verzlunarskipum, þar sem það samkomulag er þegar búið að fá lögfestingu. Mér skilst það vera nokkuð sambærilegt, að hér fengist samkomulag milli atvinnurekenda og sjómanna um þessa tryggingu, þó að hún hér í öðru lagi geti hugsazt sem samkomulag. Þetta er höfuðástæðan til þess, að ég hefi borið þetta mál fram.

Ég vildi óska, að hv. d. gæti greitt fyrir þessu máli, sem ég álít, að eigi að fara til fjhn.