18.12.1939
Efri deild: 87. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (3406)

159. mál, brúasjóður

*Flm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. er fram komið vegna þess, að á undanförnum árum hefir þess orðið mjög vart, að hinar kostnaðarsamari brýr hafa ekki orðið byggðar hér á landi. Þegar maður lítur yfir brúalögin frá 1932, sér maður þar, að enn hefir ekkert orðið úr fjöldamörgum brúargerðum, sem þar eru ákveðnar. Ég ætla ekki að fara að telja upp allar þær brýr, aðeins benda á 3. liðinn, brýr annarstaðar en á þjóðvegum. Þar eru þær taldar hvorki meira né minna en 16, og á þessum 6 árum síðan hefir aðeins ein þeirra verið byggð, brúin yfir Skjálfandafljót. En eftir eru margar fleiri brýr yfir stórvötn, sem þarf að brúa og verða brúuð áður en langir tímar líða, svo sem Jökulsá í Lóni og Hornafjarðarfljót, — sem vitað er, að hægt er að brúa. Fjárhagur hefir ekki leyft það síðari árin að þoka því áfram. En hvar sem maður kemur, er kvartað undan því og víðast á rökum reist, að brýr vanti.

Það má ekki ganga svo ár eftir ár og áratug eftir áratug, að ekki sé von um það fram undan, að þessi vötn séu brúuð. Laust eftir 1930 var nokkuð gert að því að byggja brýr, eins og fleira, fyrir lánsfé. Ég ætla, að með því móti hafi stórbrúin yfir Markarfljót komizt upp og brúin, sem ég nefndi, yfir Skjálfandafljót, og kostaði hún mikið á annað hundrað þúsunda. Sá stóri galli er á þeirri aðferð, að afborganir af lánunum éta upp stóran hluta af því, sem ríkissjóður getur varið til brúa og vega síðar meir. Í þessu frv. er reynt að benda á leið til að smáþoka bráðnauðsynlegum brúargerðum áfram.

Að vísu er hér lagt til að lögleiða nýja skatthækkun, bæta einum eyri við aðflutningstollinn af hverjum benzínlítra og leggja í sjóð, sem eftir nokkurn tíma, sennilega að stríðinu loknu, gerði fært að byggja stórbrýr. Áætlað er, að þessi tollauki mundi gera 70–80 þús. kr. á ári. Það fé mundi líklega leggjast að mestu á umferðina í landinu, þó nokkuð eftir því, hvernig á stendur, og ekki víst, að fargjöld þyrftu almennt að hækka sem því svarar. En þótt svo yrði, hafa einhverjar álögur orðið þyngri. Skammt er síðan samþ. var að leggja 50% skatt á fargjöld milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, til tekjuauka fyrir Hafnarfjarðarbæ, og mun það gefa 50 þús. kr. á ári. Gert var ráð fyrir meiru, en skatturinn hefir víst dregið úr umferðinni. Þó ætti landsmenn alla saman að muna minna um þessa eyrishækkun á benzíninu.

Ég vil geta þess, að flm. hafa ráðfært sig við vegamálastjóra um málið, og hann er því samþykkur, að nýjar brýr muni ekki verða reistar í næstu framtíð án sérstakrar tekjuöflunar. Þannig leizt honum á útlitið. Sömuleiðis leit hann svo á, að tilkostnaður við vega- og brúagerðir hlyti meir og meir að leggjast á umferðina, á þá, sem nota flutningatækin og vegina, svo að 1 eyris skattauki gæti ekki talizt nein óhæfa. Það er í sjálfu sér hæpið, að þetta frv. verði gert að lögum nú á þinginu; ég veit ekki, hve lengi það stendur, enda er afgreiðsla fjárl. óráðin í mörgu. En jafnvel þótt það yrði ekki að lögum að sinni, þykir okkur rétt að hreyfa því. Þá er tiltækilegra að taka það upp á næsta Alþingi.

En málið þolir ekki langa bið. Nú stendur t. d. þannig á við Jökulsá á Fjöllum, að búið er að leggja veg eða ryðja veg að henni báðum megin, og vantar aðeins brúna til þess að leiðin til Austurlands styttist um liðuga 70 km. Vitanlega sparast ekki svo lítið af benzíni og bifreiðahlutum við slíka stytting vegarins. Víða annarstaðar skera fljót sundur byggðarlög til stórtjóns. Ef nokkuð megnar að fá fólkið til þess að búa í sveitunum, er fátt mikilsverðara í þá átt en að kippa úr vegi slíkum torfærum.

Ég sé ekki ástæðu til langrar ræðu um þetta frv. Ekki er óeðlilegt, að það fari til fjhn., vegna þess, að um nýjan skatt er að ræða, en til mála gæti komið samgmn., og skýt ég því til hæstv. forseta að bera upp þá tilvísun til n., sem hann telur eðlilegri.