22.04.1939
Sameinað þing: 8. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (3422)

84. mál, náttúrufræðirannsóknir o. fl.

*Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti! Í grg. þessarar till. er drepið á það helzta, sem máli skiptir í sambandi við hana, en auk þess þykir mér rétt að geta nokkurra atriða.

Náttúrufræðirannsóknir greinast samkv. eðli sínu í tvennt: fræðilegar rannsóknir og hagnýtar rannsóknir. Um hinar fræðilegu rannsóknir er það að segja, að það hefir verið heldur litill áhugi fyrir þeim hér á landi. Í því sambandi þykir mér rétt að benda á, að um leið og þjóðin tók við sjálfstæðinu, tók hún á sig margar skyldur, m. a. þá, að rannsaka landið. Það er skylda, sem hver einasta fullvalda þjóð tekst á hendur. En nú hefir það orðið þann veg, vegna fjárskorts og fámennis hér hjá okkur, að minna hefir orðið úr slíkum rannsóknum hér á landi en skyldi. Afleiðingin hefir orðið sú, að þeim mönnum hefir árlega fjölgað, sem hingað hafa leitað til rannsókna. Þessir menn margir hverjir hafa gengið hér um eins og við værum ekki fullvalda þjóð. Og það er vitanlegt, að meðan við ekki tökum sjálfir upp slíkar rannsóknir, þá höfum við tæplega rétt til að standa gegn slíku. Út af þessu hefir smám saman skapazt það álit, að við séum ekki sjálfstæð þjóð á þessu sviði. Þess er ekki langt að minnast, að hingað hafa komið leiðangrar frá erlendum háskólum og farið um landið í rannsóknarskyni án þess að spyrja, hvort þeir væru velkomnir. Slíkt mundi ekki þolað í nokkru öðru landi. Og vitanlega er slíkt og því um líkt frekleg móðgun við fullvalda þjóð, en við höfum orðið að sætta okkur við þetta. Ég geri ráð fyrir, að allur þorri manna geri sé: tæplega ljóst, hvað alvarlegt mál er hér á ferðinni. Jafnframt þessu hafa svo þeir innlendir menn, sem fengizt hafa við rannsóknir hér, mætt harla litlum skilningi og orðið að leita til erlendra manna um ýmsar upplýsingar. Það hlýtur að vera álit manna, að þetta þurfi að breytast.

Um hagnýtu rannsóknirnar er það að segja, að þær eru algerlega lífsnauðsyn fyrir okkur. Það hlýtur að vera takmark okkar að rannsaka, hvað raunverulega er hér af efnum í jörðu, og hvers virði þau eru, bæði málmar og önnur efni. Við þurfum að eignast spjaldskrá yfir allar náttúruauðlindir Íslands. Það er að vísu svo, að við erum fátæk þjóð. Við þurfum þess vegna ekki að hugsa til, að við getum gert þessar rannsóknir algerlega á eigin spýtur. En við eigum að hafa forystuna og alla umsjón með þessum rannsóknum. Því er þessi till. til þál. komin fram, að við viljum flm. hennar, að vilji Alþ. komi fram í þessu efni, sá vilji, að við höfum í hyggju að taka að okkur yfirstjórn þessara mála og lítum aðeins á það sem móðgun, ef erlendir menn koma hingað til rannsókna án þess að leita samvinnu við okkur. Hitt er annað mál, að sú samvinna myndi í mörgum tilfellum fást.

Ég skal að endingu geta þess, að þetta mál er undirbúið í samráði við utanríkismálanefnd. Hefir verið leitað fyrir sér um, hvaða ákvæði gilda um þetta erlendis. Einnig hefir verið rætt við sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn um málið og leitað tillagna hans og umsagnar. Erlendis gilda engin hein fyrirmæli eða lagaákvæði um þessa hluti, en venjurnar aftur á móti orðnar svo fastar, að þeim hróflar enginn maður, hvorki erlendur né innlendur. Og það er litið svo á af flm. og öðrum, sem að þessari till. standa, að það sé tímabært, að Íslendingar láti það einnig í ljós, hvers þeir óska í þessum efnum.