22.04.1939
Sameinað þing: 8. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

84. mál, náttúrufræðirannsóknir o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Út af fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv. út af þessari nefndarskipun skal ég upplýsa, að þessi n. er ólaunuð, svo að það verður ekki mikið úr því ádeiluatriði. Þessir menn eru allir mjög áhugasamir á þessu sviði, og við væntum þess, að starf þeirra, ásamt starfi framkvæmdarstjórans, geti borið nokkurn árangur.

Ég ætla ekki að fara langt út í umr. um þetta mál, en ég get þó tekið það fram, sem ég veit, að hv. þm. er kunnugt, að það hafa á undanförnum árum farið hér fram nokkrar rannsóknir. Þessar rannsóknir hafa verið dreifðar á milli margra manna, sem hafa áhuga fyrir þeim. Þessari till. og þeirri n., sem skipuð hefir verið. er ætlað að samræma þessar rannsóknir, sem gerðar hafa verið, og koma þeim fyrir á einn stað í rannsóknarstofu atvinnuveganna. Ættu þessar rannsóknir að geta myndað þar safn í framtíðinni, sem áhugamenn hefðu aðgang að. Það er mikill áhugi hjá mörgum, og margir óska að kynna sér þessar hverarannsóknir. 6 eða 7 manns hafa lánað þessi gögn, og það var spurt eftir þeim af áhugamanni norður í landi, en við gátum ekki sent þau þangað.

Fyrir 3 árum voru gerðar hér rannsóknir um hvernig ætti að gera hér sement. Menn komust að þeirri niðurstöðu, að sú framleiðsla væri möguleg hér á landi fyrir 58 kr. tonnið, en það þótti of dýrt. Eins og þeim rannsóknum er háttað nú, þarf að taka efni. inni við Elliðaár og sækja sand vestur á firði, en leirinn við Elliðaárnar er ekki nógu kísilborinn, og þarf því að fá hann á hverasvæðum. Þetta liggur fyrir og þarf að halda áfram athugunum á, og ef tækizt að finna efni á réttum stöðum, mundi framleiðslan geta borið sig. Ég nefni þetta rétt sem dæmi, en nú it að reyna að koma skipulagi á þessi mál, og til þess hefir verið valin þessi nefnd. Laun framkvæmdarstjórans eru um 8000 kr., þegar talin eru skólastjóralaun hans og viðbótarlaun fyrir þetta starf. Reynslan mun leiða í ljós, að ekki verður séð eftir þessu fé. Hvað svo verður veitt til þess að halda starfinu áfram, er undir fjárveitingavaldinu komið, en ríkisstj. taldi ekki rétt að láta þetta starf bíða lengur en orðið er.

Hv. flm. till. hefir gert grein fyrir ástæðunum til þess, að hún er flutt, og þær koma líka fram í grg. Það er ætlunin að senda fulltrúum erlendra ríkja afrit af till. Það er ekki vegna neinnar sérstakrar þjóðar, heldur vegna starfsins almennt, að þessi till. er flutt.

Ég efast ekki um, að ef þál. er send fulltrúum erlendra ríkja, mun hver þjóð sýna þá kurteisi að fylgja þeim reglum, sem settar verða.