22.04.1939
Sameinað þing: 8. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3426)

84. mál, náttúrufræðirannsóknir o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Ég er ekki að sjá eftir opinberu fé til vísindarannsókna, enda getur þessi þáltill. ekki heimild til fjárveitinga. Ég vil þó geta þess, að mér virðist ekki geta gengið lengur, að enginn fjárveiting sé til þessa, og væri eðlilegra að hafa á því fastara form en í till. og nánar tengt Háskóla Íslands.

Við erum nú nýbúnir að heyra í útvarpinu, að það gilda mismunandi siðareglur hjá hinum ýmsu stórveldum, og ég get vel hugsað mér, að hingað komi menn, sem virði að vettugi þær reglur, sem við viljum setja. Ég hygg og, að einhverjar hömlur séu á þessu í okkar nágrannalöndum. a. m. k. í Englandi, og nákvæmar rannsóknir á því, til hvers menn koma inn í landið.

Ég vil vænta þess, að fyrir frh. þessa þings í haust hafi stj. undirbúið þetta mál betur og að þá verði gengið í að koma fram hagnýtum rannsóknum.