25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3432)

79. mál, síldarlýsisverksmiðja

*Flm. (Finnur Jónsson):

Ég get um þessa till. vísað til grg., sem henni fylgir. Þarna er um nokkuð mikið mál að ræða, ef hægt er að auka verðmæti síldarlýsis um milljónir króna með því að koma á vinnslu þess og herzlu hér á landi. Það er aðallega tvennt, sem til þessarar iðju þarf rafmagn og vatn. Verksmiðja, sem vinnur úr 10 þús. smálestum á ári, mun þurfa um 35 tonn af vatni á klst. En hér á landi ætti ekki að vera vatnsskortur. Nú er verið að reisa á Norðurlandi rafstöð, sem ætti að geta framleitt ódýrt rafmagn. Þá virðist koma til mála að hafa verksmiðjuna á Akureyri. En sennilega mundi þó Reykjavík þykja öruggari og hentari staður. Hafnir fyrir norðan geta lokazt af hafis og útflutningur teppzt langan tíma að vetrinum.

Síðan ég lagði fram þessa till. hefir ungur verkfræðingur komið að máli við mig um þessi efni. Hann hefir kynnt sér þau rækilega. Og sem prófraun frá Polyteknisk Læreanstalt í Kaupmannahöfn hafði hann einmitt fengið verkefni í þessari grein. Hann gaf mér þær upplýsingar, að verksmiðja, sem ætti að geta unnið úr 16 þús. tonnum á ári, mundi kosta um 300 þús. kr. Ennfremur sagði hann, að ef vel tækist með herzlu á síldarlýsinu, þannig að nota mætti það í stórum stíl til manneldis, í smjörlíki o. fl., þá væri verðmunurinn á unnu og óunnu lýsi of lágt reiknaður í grg. þáltill. Hann taldi lýsið eiga að geta vaxið um allt að 100% að verðmæti við herzluna.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Ég vona, að hv. Alþingi sjái sér fært að samþ. till. og að rannsóknum verði hraðað sem mest. Því að ég er sannfærður um, að hér er um mjög mikilsvert atriði í aukningu atvinnuveganna að ræða.