26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (3439)

92. mál, vöruflutningaskip til Ameríkuferða

*Frsm. (Jónas Jónsson) :

Ég get ekki komizt hjá því að skýra þetta mál lítið eitt, með því að það er ekki öllum hv. þm. jafnkunnugt. En það stendur svo á, að eftir því, sem ég veit bezt, mun framkv.stjóri Eimskipafélags Íslands, Guðmundur Vilhjálmsson, vera staddur í Kaupmannahöfn og verða innan skamms að taka ákvörðun um það, hvort hann og stjórn félagsins lætur byggja skip fyrir félagið af þessari gerð eða ekki.

Aðdragandi þessa máls er sá, að Eimskipafélag Íslands hefir um nokkuð mörg ár verið að búa sig undir byggingu skips, töluvert stærra en þau skip, sem það hefir átt hingað til. Og það hefir rerið meining félagsstj. og hún hefir undirbúið það á þeim grundvelli, að það væri mjög stórt skip, en að öllum líkindum að hálfu leyti mannflutningaskip. Það er að áliti stjórnar Eimskipafél. tími til þess kominn að gera út skip, sem gangi til Englands og Danmerkur með töluvert meiri hraða en þau skip, sem nú eru í þeim förum, miðað við, að slíkt skip gæti dregið hingað útlenda ferðamenn á sumrin. Nú voru þó ekki allir í stj. Eimskipafél. á þetta sáttir, eins og nú standa sakir, þannig að eimskipafélagsstj. hefir samþ. að gera annað af tvennu, annaðhvort að byggja svona stórt skip, sem að hálfu leyti væri mannflutningaskip, en geti þó tekið töluvert meiri farm heldur en t. d. Gullfoss og Dettifoss, eða þá hinsvegar að láta gera skip, sem væri talsvert minna. Og ég hygg, að munurinn sé sá, að stóra skipið, ef til kæmi að kaupa það, mundi eftir núverandi gengi kosta talsvert á fimmtu millj. kr. og vera 320 fet á lengd. Aftur á móti er hinn möguleikinn, sem stj. Eimskipafél. álítur vera fyrir hendi, að gera skip sem sé 260 fet á lengd og gangi ekki eins hratt og stóra skipið mundi gera, en kostar þá að sama skapi minna, með því að í því skipi mundi ekki vera tekið pláss í farþegarúm nema á þiljum uppi, eins og á Dettifossi, og þá er gert ráð fyrir, að á slíku skipi mætti rúma eins marga farþega eins og nú á Gullfossi.

En það, sem hefir komið okkur í fjvn. til þess að leggja þessa þáltill. hér fram, er það, að við álitum, að það væri mjög heppilegt, ef hægt væri að byggja skip nú, sem yrði alveg föst byrjun að því að leggja grundvöli að viðskiptum við Ameríku, sem fyrst og fremst byggist á vöruflutningum, og fyrst og fremst byggist á því, að flytja vörur frá okkur til Ameríku, og þá um leið væntanlega vörur til okkar þaðan aftur um leið og verzlun byrjaði þar með okkar vörur. En ef stefnt er að þessu sem aðalatriði, þá er ekki rétt að leggja höfuðáherzlu á, að skipið verði að hálfu leyti farþegaskip, því að við mundum geta fengið nóg ferðafólk frá Ameríku á sumrin, en þetta farþegarúm, ef haft væri í skipinu, yrði þá að standa autt verulegan tíma úr árinu, yfir vetrartímann. Og ef skip á t. d. að hafa farþegarúm fyrir 200 farþega,þá tekur það vitanlega mikið af lestarrúmi skipsins. En það er ekki hlutverk okkar hér í fjvn. að segja stjórn Eimskipafél. fyrir um það, hvað hún á að gera. Hitt er annað mál, sem hér liggur fyrir, og það, sem við vildum mæla með, ef Alþ. sýndist það ráð, að skora á ríkisstj. að reyna að komast að samkomulagi við stjórn Eimskipafél. Ísl. um, að það byggi skip, aðallega til Ameríkuferða, og að ríkisstj. sé heimilt að heita félaginu styrk til rekstrar þess skips. — ég skal ekki segja, hve miklum, en talsverðum, í hlutfalli við þann rekstrarhalla, sem gera má ráð fyrir, að yrði á rekstri skipsins fyrstu árin a. m. k. Nú er það þannig, að Eimskipafél. hefir í sjálfu sér skuldbundið sig til þess, nema ef það fellur frá því vegna fjárhagsástæðna, að gera vöruflutningaskip, sem að hálfu leyti væri mannflutningaskip eða að öðrum kosti samskonar skip og hér í þáltill. er vikið að. Ef Eimskipafél. byggir vöruflutningaskip þetta og kærir sig ekki um að láta það ganga nema til Englands og Danmerkur eða Englands og Þýzkalands, þá er ekki ástæða til þess að styrkja Eimskipafél. til vöruflutninga á þeim gömlu leiðum, þeir eiga að borga sig. En ég hygg, að Eimskipafél. Ísl. mundi fá velviljaðan stuðning alls þorra landsmanna, ef það tæki sér fyrir hendur að hefja Ameríkuferðir, þó að á því yrði tap fyrst í stað, sem gera má ráð fyrir. – Ég vil ekki fullyrða, hvort það gæti skeð. að fyrsta árið gæti orðið notað til þeirra ferða minna skip. þ. e. a. s. eitthvert af eldri skipunum, meðan flutningarnir væru að vaxa. Þó skiptir það ekki máli. — Ef þetta skip er vélskip, með 14 mílna hraða, þá eru í því fólgnir möguleikar til þess, að við getum byrjað að fara nýjar leiðir til viðskipta vestur þar.

Það, sem knúið hefir okkur í fjvn. til þess að leggja fram þessar till., eru þessir sívaxandi erfiðleikar á að koma íslenzkum vörum á markað erlendis. Við vitum nú í dag ekki annað en að Spánn sé okkur lokaður í því efni, og það er alltaf að verða erfiðara og erfiðara með sölu í Portúgal. Við erum með mestan „kvóta“ á Ítalíu, en hann er þó lítill miðað við það, sem áður var. Salan til Þýzkalands er nú góð, miðað við það. sem áður var. En Þjóðverjar keppa alltaf með miklum dugnaði að því að vera sjálfum sér nógir, og útlit er fyrir, að ekki liðu á löngu þangað til að þeir verða það svo að þeir þurfi ekki að kaupa fisk af okkur. Þess vegna finnst mér full þörf á því að gera sem fyrst ráðstafanir til þess að geta selt fisk í Ameríku. Ég get ekki hugsað mér annað en að við munum geta unnið markað fyrir okkar fisk í Ameríku. þar sem við höfum einhvern bezta fisk í heimi til að selja. Við höfum nú kælitæki og getum gert úr honum ákaflega góða vöru. Í Bandaríkjunum er meiri kælitækni en í nokkru öðru landi í heimi. Þar eru fleiri kælihús, kælivagnar og kæliskápar heldur en í nokkru öðru landi í veröldinni. En þegar við reyndum að koma þessari vöru til Tékkóslóvakíu, þá var það þröskuldur í veginum fyrir sölu á fiski þangað, að slík tækni var þar ekki nema í tiltölulega smáum stíl og eftir að byggja hana upp.

Nú dettur mér ekki í hug að segja, að það, að Bandaríkjamenn hafa mikla kælitækni, sé sama sem það, að þeir muni kaupa af okkur fisk. Það geta komið til greina stórir erfiðleikar á þessari sölu. En við stöndum vel að vígi um verzlun þar vestra að því leyti, að Bandaríkin vilja frjálsa verzlun, og þar aftur hægt að fá það, sem við viljum flytja inn.

Ég játa, að þetta, sem ég hefi nú sagt um viðskipti við Ameríku, mundu e. t. v. ekki þykja þung rök, ef við værum ekki sama sem afskornir frá þessum gömlu mörkuðum. Og þó að ég gæti búizt við því, að það yrði ódýrara að flytja vissar vörur frá Ameríku með stórum skipum til Englands, þá er aftur það, sem hér kemur til greina, ef við ætlum að koma okkar vörum, t. d. fiski, inn á markað í Bandaríkjunum, að því verður ekki við komið nema með okkar eigin skipum, alveg eins og við urðum að byggja Brúarfoss á sínum tíma til þess að koma útflutningsvöru bænda til Englands.

Ég fór einn dag með Vilhjálmi Þór til þess að taka á móti síld í kössum, reyktri og frystri, sem var búið að umskipa í Leith og flytja til Glasgow, og mikið af kössunum var ónýtt. Það má nú náttúrlega segja, að sú sala hafi verið á tilraunastigi og að kassarnir hafi ekki verið nógu sterkir. En það vita allir, hve miklum erfiðleikum það er bundið, ef umskipa þarf vörum, sem sendar eru svona eins og þessi síld á markaðinn. Sérstaklega mundi slík umskipun vera óþægileg á frystum fiski. Annars, þó að ég nefni þetta dæmi um síldarsendinguna, ætla ég ekki að fara út í síldarsölumálin, en aðeins segja, að þetta er ekki nema á byrjunarstigi enn. En ég vil rétt geta um það samt, þó að það sé ekki stór röksemd, að einn stærsti íslenzki kaupmaðurinn í Vesturheimi, Sveinn Þorvaldsson úr Skagafirði, seldi holllenzka síld. Hún kom í litlum ílátum. sem voru miðuð við það, sem fólkið vildi hafa þar. Þessi íslenzki kaupmaður hefði hundrað sinnum heldur viljað fá íslenzka síld til sölu. Ég hygg, að þegar betur væri leitað í Ameríku, mundi takast að koma miklu meira af okkar vörum út þar heldur en nú á sér stað. Og ein af okkar beztu vörum er nú nær eingöngu seld til Bandarikjanna, sem er lýsi, sem hefir unnið sig þar inn sem verzlunarvara.

Ég læt hér staðar numið að tala um þá nauðsyn, sem mér finnst á því að hafa skip, sem hæft er til Ameríkuferða. Það er ekki hægt að segja, að gömlu skipin séu hæf til slíkra ferða, því að þau eru kolaskip og eyða svo miklu í kol. Þótt þau hafi verið notuð til slíkra ferða á stríðsárunum og verði sennilega aftur notuð til þeirra undir sömu kringumstæðum, þá er í raun og veru ekkert vit í að hafa til slíkra ferða nema olíuskip, því olían tekur svo lítið pláss og hefir ýmsa aðra kosti þar að auki. Ef það tækist að smiða svona skip, áður en ófriður skellur á. þá er það hið mesta bjargráð að hafa samband við Ameríku, og þó búast megi við, að sá ófriður verði þannig, að skip okkar verði í hættu á þessari leið, þá er það þó ekki svipað eins og kringum England.

Að síðustu vil ég víkja að því, sem fyrir mér er stórt atriði. En það er viðhorfið til landa okkar í Ameríku. Þó ég geri ekki ráð fyrir, að það verði verulegur burtflutningur héðan að heiman vestur eða heimferðir að vestan, þá eru nú í Ameríku undir 50 þús. manna, sem sumt er fætt á Íslandi, sumt fætt vestra og talar íslenzku, en sumt talar ekki íslenzku. Þetta fólk er dreift um allt Kanada og öll Bandaríkin. Það er í raun og veru mikil vansæmd fyrir okkur að vanrækja þetta fólk, svo og sýna því svo lítinn sóma, að menn hér heima hafa það almennt á tilfinningunni, að þetta fólk sé dáið okkur. En það hefir aftur á móti tilfinningu fyrir okkar landi. Ég held, að ef við gætum byrjað þessar ferðir vestur, þá mundi það valda mikilli breytingu í okkar andlega lífi, að menn færu þá vestur til að læra vissa hluti og það kæmu menn að vestan, aðallega til þess að sjá gamla landið, og einnig væri hægt að skipta á unglingum til náms. Margt af þeirri teknisku þekkingu, sem við nú sækjum til annarra landa, ættum við að geta fengið þar.

Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á eina grein, lögfræðina, en í henni höfum við Íslendingar að vonum mjög lítið tekið eftir Ameríku. Þegar ég var vestra, þá talaði ég alloft við nokkra af hinum ágætu íslenzku lögfræðingum í Kanada og Bandaríkjunum. Þeir sögðust vera mjög fúsir til, ef lögfræðingar kæmu að heiman, að koma þeim inn í réttarfarið vestra. Ég nefni þetta sem dæmi, því mér finnst rétt, að við í andlegum efnum höfum ekki eingöngu samband við meginlandið.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meir um þetta. En það getur vel verið, að þótt þessi till. verði samþ., þá náist ekki samningar milli stjórnar Eimskipafél. og ríkisstj., og gæti það komið sér illa, ef ófriður kviknaði á næstunni. En þessi till. er þó ekki miðuð við stríð, heldur frið. Hún er miðuð við það, að við réttum út hægri handlegginn í vesturátt, svo að við hér í Atlantshafinu höfum mikil og góð sambönd á báðar hendur. Það er ætlunin að stofna með þessu nýja skipi tengilið við Ameríku, svo að við getum komið þar á markað okkar fiski, síld og lýsi og kannske fleiru, og til þess, að við getum kynnzt þessu stóra landi.