26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3442)

92. mál, vöruflutningaskip til Ameríkuferða

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég fór því miður á mis við meiri hlutann af ræðu hv. form. fjvn. og get því ekki beinlínis svarað henni. Ég þóttist þó heyra, að hann í ræðu sinni var að tala um hina miklu hugsjón sína, að tengja íslenzku þjóðarbrotin vestan hafs og austan sem föstustum böndum. Hann hefir með för sinni vestur markað ný tímamót í sögu kynningarmálsins milli þjóðarbrotanna vestan hafs og austan. Mér er óhætt að fullyrða, að enginn Íslendingur hefir komizt í jafnnáin kynni við íslenzku þjóðina vestan hafs eins og form. fjvn. Ég lít á þessa viðleitni með hinni mestu samúð, og ég er fús að leggja minn skerf til þess að tengja sem bezt saman þjóðarbrotin vestan hafs og austan. Ég hefi orðið þess var, að hann fylgir þessu máli fast eftir í smáu sem stóru, og tek ég þessa till. sem lið í þeirri viðleitni hans.

Ég álít hinsvegar, að Alþ. megi ekki blanda saman þeirri samúð, sem það hefir með því að tengja saman íslenzku þjóðarbrotin vestan hafs og austan, og hinsvegar peningamálum Eimskipafél. Íslands, nema innan hæfilegra vébanda. Ég get ekki séð, að þessi till. þótt samþ. verði, geti á nokkurn hátt verið óviðfelldin fyrir stjórn Eimskipafél. Íslands. ef litið er á hana þeim augum, sem ég ætla að leyfa mér að líta á hana, að hún sé til viðbótar því, sem ríkisstj. hefir áður sagt við stjórn Eimskipafél. í sambandi við væntanlegu byggingu Eimskipafélagsins á stóru farþegaskipi.

Ég vil út af ræðu hv. þm. A.-Húnv. aðeins segja það, að ég álít, að það sé svo fjarri því, að það sé nokkur fjarstæða, að Eimskipafél. hefji byggingu á fyrirhuguðu farþegaskipi, að ég álit þvert á móti. að það væri til hins verra, ef svo væri dregið úr stórhug þessa fyrirtækis, að það þyrði ekki að ráðast í byggingu á slíku skipi, sem að sjálfsögðu væri miklu smærra spor heldur stigið var 1914, þegar Eimskipafélagi Íslands var hleypt af stokkunum með byggingu Gullfoss og Goðafoss.

Ég ber ekki þau kennsl á þetta mál, að ég treysti mér til að kveða upp endanlegan dómum það, hvort þessi stefna Eimskipafél. Íslands sé rétt að öllu leyti, þó ég sjái nú, að fengnum þeim upplýsingum, sem ég tel mig hafa fengið, að það sé hyggilegra að gera það heldur en að byggja það skip, sem verið var að hugsa um. Ég vil ekki kveða upp neinn dóm um þetta. fyrr en ég hefi kynnt mér það, og ég tel mig hafa óbundnar hendur um að snúast á hvora þá sveif, sem mér finnst eðlilegri táknmynd af þeirri hugsjón Íslendinga, að geta dregið fána hinnar íslenzku þjóðar við sæmilegan hún í erlendum höfnum.

Það var fjarri sanni, að ríkistj. telji sig bundna af því bréfi, sem fyrrv. atvmrh. hefir látið frá sér fara. En ég vil upplýsa það sem mína skoðun. að ríkisstj. sé bundin af öðru bréfi frá sama ráðh., og það verður þá verkefni ríkisstj. að losa þau bönd, ef hún telur ástæðu til að gera það. Ég tel ekki ástæðu til að draga það inn í umr.

Ég vil. að það komi skýrt fram frá minni hendi, að ég skoða þetta sem örvun til Eimskipafél. Íslands um að styðja sem bezt viðleitnina til að tengja saman þjóðirnar vestan hafs og austan, og í öðru lagi að styðja að því, að nánari tengsl megi takast út frá viðskiptalegu sjónarmiði milli Íslands og Ameríku. En það má gjalda varhuga við að stíga víxlspor í þessu sambandi og leggja of mikið af mörkum. áður en þróunin er komin á það stig, að hún kallar á þá flutningaþörf, sem ætlað er að bæta úr með byggingu slíks skips.

Ég vil svo að lokum segja það, að hvernig sem fer um till., þá lít ég svo á, að atvmrh. og raunar öll ríkisstj. hafi óbundnar hendur, bæði af till. og eins af bréfi fyrrv. ráðh., um endanlega afstöðu til væntanlegrar byggingar á skipi fyrir Eimskipafél. Ísl., sem ég að vísu álít, að ríkisstj. hafi mjög takmarkað vald yfir. Ég er yfirleitt mótfallinn því, að ríkisstj. sé í sínum afskiptum að fara út fyrir hin eðlilegu takmörk. Ég hefi ekki langan ráðherraferil að baki mér, en þessa einu viku, sem ég hefi gegnt þessu starfi, þá hefir mér ofboðið, hvað ríkisstj. er ætlað að gera í smáu sem stóru. Ég held það væri betra að ráðh. hefðu takmarkaðra verksvið, en reyndu þá að leysa þau störf, sem þeir hefðu, betur af hendi. Og í þessu sambandi vil ég leggja áherzlu á að ég álít, að ríkisstj. eigi ekki að ætla sér vald um of í viðskiptum sínum við Eimskipafél. Ísl., þar sem með stjórn þess fara reyndir og hagsýnir menn, en þekking okkar er takmörkuð í þessu sambandi. Það má ekki heldur blanda saman þeirri miklu hugsjón, sem vakir yrir hv. formanni fjvn., við hreint fjárhagslegt atriði.