26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3446)

92. mál, vöruflutningaskip til Ameríkuferða

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Hv. form. fjvn. hefir nú kveðið mjög skýrt á um það, hverja meiningu hann leggi í þessa till. Hann segir, að hér sé um 2 möguleika að ræða, að byggja stórt farþegaskip, 320 fet, eða minna vöruflutningaskip, um 263 fet, sem hann vill nefna Ameríkuskip. Fleiri möguleikar eru ekki fyrir hendi, segir hann. Ennfremur segir hann, að ef þessi till. verði samþ., þá telji hann ekki heimild til að byggja öðruvísi skip en till. gerir ráð fyrir. (JJ: Jú ef Eimskipafélagið gerir það sjálft). Já, ef það gerir það án ríkisstyrks. Nú verð ég að segja fyrir mitt leyti, að mér finnst ekki eðlilegt, að Alþ., að framkomnum upplýsingum um málið, fari að taka ákvarðanir um það, hverskonar skip verði tekið. Ég segi fyrir mig, að ég mundi hika við að segja við eimskipafélagsstj., enda þótt hún teldi, að heppilegra myndi að byggja þetta skip en hitt, að þá segði ég henni að byggja hitt skipið, en ekki þetta. Því síður mundi ég gera slíkt, ef ég hefði engar talnalegar upplýsingar um, hvort væri hagkvæmara, eins og vitað er, að Alþ. hefir ekki fengið. Eftir þeim upplýsingum, sem fram eru komnar, legg ég eindregið til, að þessu máli verði vísað til stj., og ég hygg, að formaður fjvn. hafi ágæta aðstöðu hjá ríkisstj. til að koma með sínar meiningar, og ennfremur að hann þurfi ekki að vera hræddur um, að ekki verði tekið tillit til hans álits, svo fremi sem sannfæring ríkisstj. leyfir. Stjórnin hefir tilhneigingu, svo framarlega sem sannfæring leyfir, að taka tillit til óska hans í þessu máli. En mér finnst, að ekki megi krefjast þess, að Alþ. taki fram fyrir hendur eimskipafélagsstj. án þess að hafa sýnt viðleitni til að rannsaka málið.