26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3448)

92. mál, vöruflutningaskip til Ameríkuferða

*Frsm. (Jónas Jónsson) :

Ég held, að hv. síðasti ræðumaður hafi nú enga sorgarsögu af því að segja, hvernig búið hafi verið að Eimskipafélaginu. Það hefir verið búið vel að því, eins og það hefir verðskuldað. Þetta, sem hér er um að ræða, er ekki kúgun. Það liggur fyrir, að Eimskipafél. hefir samþ., að um tvær leiðir sé að ræða, eins og ég hefi tekið fram. Það má því ekki líta svo á, að hér sé verið að koma með eitthvað út í bláinn. Eggert Claessen kom fyrir nokkrum dögum til okkar á fund í fjvn. Hann sagði við okkur um leið og hann var að fara, að við ættum nú að geta Eimskipafél. einhverja sumargjöf. Nú vil ég ekki segja. að hann hafi verið að beiðast eftir þessu í alvöru, en ef þessi till. verður samþ., þá er félagið búið að fá þessa sumargjöf. Það væri auðvitað öllum ánægjuefni. ef við gætum byggt stórt farþegaskip, en við erum bara ekki þannig stæðir, að við getum leyft okkur slíkt. Okkur vantar ýmislegt fleira en farþegaskip, sem við getum ekki veitt okkur vegna fátæktar. Við eigum t. d. ekkert almennilegt hús undir stjórnarráð. Þó er okkar gamla stjórnarráð orðið gamalt og allt of lítið. Öll skjöl eru í hættu vegna eldhættu. En hvers vegna eigum við ekki stórt og nýtízku stjórnarráðshús? Vegna þess að við erum svo fátæk, að við getum ekki byggt það. Og það er af sömu ástæðu, sem ég tel, að við getum ekki núna leyft okkur að byggja stórt farþegaskip. Það er líka annað í því sambandi. Það er vitað, að ef við fengjum stórt farþegaskip, þá mundi ferðamannastraumurinn aukast. En hvað eigum við að gera við þá ferðamenn. Við höfum engin rúm handa þeim. Við þurfum fyrst að byggja nægileg rúm handa ferðamönnum, áður en við byggjum skip til farþegaflutninga. Það sagði mér einn kunningi minn frá Englandi, hvernig hann hefði haft það hér á gististöðunum. Hann sagði, eins og satt er, að rúmin hér á gististöðunum væru svo lítil, að það væri slæmt fyrir óvana að sofa í þeim. Hann sagðist hafa það þannig, að þegar hann væri einn orðinn í herberginu, þá tæki hann rúmfötin og setti þau niður á gólf og svæfi í þeim þar. Þetta munu fleiri hafa gert. Og þetta er ekki að ástæðulausu, að ferðamenn kvarta yfir slíku. Við höfum þann sið að hringa okkur í rúmunum, en útlendingar kunna það ekki. Ég er sammála Eggert Claessen um það, að við þurfum að fá stórt farþegaskip. en við höfum ekkert að gera við það eins og stendur. Við þurfum fyrst að fá eins og 500 rúm í landinu til að taka á móti gestum. En það ber á milli okkar í meiri hl. fjvn. og stj. Eimskipafél., að hana langar til að byggja skip nú þegar. en við viljum, að það verði byggt seinna. Fyrir okkur vakir, að þjóðina vantar skip, sem sé nr. 2 af Brúarfossi, til að koma okkar ágæta fiski til þess eina lands í veröldinni, sem hefir alveg frjálsa verzlun.