21.04.1939
Sameinað þing: 7. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3458)

80. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Sauðárkrókshrepp

*Flm. (Pálmi Hannesson):

Það þarf ekki langt mál umfram grg. til þess að mæla með þessari tillögu. Eins og kunnugt er, hefir á undanförnum árum verið unnið að hafnargerð á Sauðárkróki. Verki þessu er nú að mestu lokið, nema að ganga frá hafnargarðinum fremst, verja hann ágangi brims. Eins og nú standa sakir er garðurinn í hættu og hafa orðið dálitlar skemmdir á honum í vetur.

Þegar lögin um hafnargerð á Sauðárkróki voru sett, var ekki gert neitt ráð fyrir, að vextir myndu falla á stofnkostnað þessa mannvirkis, en það varð með öllu óumflýjanlegt. Í lögunum er nfl. svo ákveðið, að framlagið skuli vera í 11 hlutum, einn hlutur á ári. Hér var því ekki um annað að ræða en að taka lán, svo hægt væri að láta verkið ganga áfram. vextirnir af því lentu því eðlilega á stofnkostnaði verksins. Að fullgera verkið má nú alls ekki lengur dragast, og þar sem nú þarf að fara að gera innkaup á efni og frestun þingsins er fyrir dyrum, var ekki um annað að ræða en að fara þessa leið, sem farin er í þáltill.

Annars má og geta í sambandi við þetta mál, en það er, að þegar hafnargerðin var áætluð, var hún áætluð út af fyrir sig, en ekkert tillit tekið til þeirra mannvirkja, sem óumflýjanlega þurfa að vera í sambandi við slíkt mannvirki til þess að það hafi möguleika til að bera sig fjárhagslega. Má þar til nefna t. d. vatnsveitu og mannvirki í sambandi við síldarsöltun. Hér verður því að bæta allmiklu við hinn upphaflega stofnkostnað.

Ég tel sjálfsagt, að þáltill. þessi fari til fjvn. til athugunar, og vil ég svo að lokum mega mælast til þess, að hið háa Alþingi veiti henni brautargengi.