25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3467)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Garðar Þorsteinsson:

Út af till. um að vísa þessu máli til fjvn. vildi ég mælast til þess, að það verði ekki gert.

Eins og hv. 1. flm. gat um, er hér aðeins um endurnýjun fyrri heimildar til ríkisábyrgðar að ræða. Og nauðsynin á að veita Ólafsfjarðarhreppi ábyrgð þessa hefir áður verið athuguð í fjvn. Hinsvegar er vitað, að í ráði er, að þingi verði frestað í kvöld eða nótt, og það væri sama sem að þetta mál næði ekki fram að ganga fyrir þingfrestun, ef málinu yrði vísað til fjvn.

Ég get upplýst það, sem líka kemur fram í grg. till., að Ólafsfjarðarhreppur hefir nú möguleika á að fá lán og byrja á verkinu í sumar. Og það er ekki hægt að notast við stöð þá, sem nú er framleitt með rafmagn í Ólafsfirði. Enda hefir rafmagnseftirlit ríkisins bannað að nota þessa stöð í því ástandi, sem hún er nú. Það er því nauðsynlegt að byrja á þessari rafstöð strax í sumar.

Þar sem, eins og ég hefi sagt, er hægt að fá lán til þessarar framkvæmdar nú, vildi ég mælast til þess, að þessu máli, sem aðeins er endurnýjun á fyrri heimild, verði ekki vísað til n., þar sem fjvn. á Alþ. 1936 er búin að taka afstöðu til þess og var með því að veita Ólafsfjarðarhreppi þessa ríkisábyrgð, enda kostar stöðin ekki meira nú, nema síður sé. Þess vegna er nú minni ástæða til, að þetta mál fari til hv. fjvn.