26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (3472)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

Páll Zóphóníasson:

Ég hefi áður lýst þeirri afstöðu, sem ég hefi til rafmagnsmála yfirleitt, en í sambandi við þessa till. langar mig til að spyrja hv. flm. hennar um nánari upplýsingar en gefnar eru í grg.

Það hefir verið talað um að virkja Laxá og það hefir verið talað um að koma rafmagninu til Akureyrar og Eyjafjarðar. Í því sambandi vil ég fá upplýsingar um — það er gert ráð fyrir, að þessi virkjun kosti 155 þús. — hvað það kostar að taka línu frá Eyjafirði og til Ólafsfjarðar. Er það dýrara eða er það ódýrara, fæst meira rafmagn með því og verður það tryggara eða ótryggara? Það hefir líka verið talað um að virkja Skeiðfoss og leiða rafmagn þaðan til Siglufjarðar. Hefir verið athugað í sambandi við það, hvað kosta muni að láta Ólafsfjörð fá rafmagn þaðan? Um þetta vil ég fá upplýsingar áður en ég greiði atkv.