26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (3477)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Garðar Þorsteinsson:

Það, sem hv. 1. þm. Árn. sagði og var meginþátturinn í hans ræðu hér áðan, var tómur skætingur til mín og persónuleg illyrði, sem ég sumpart mun síðar svara og sumpart láta sem ég ekki hefði heyrt það. Hann talaði um, að ég hefði í upphafi minnar ræðu sagt, að hann hefði viljað eyða málinu eða drepa það. Hvort orðið sem ég hefi notað, þá stend ég við það.

Það þýðir ekkert fyrir þann hv. þm. að koma hér fram með sakleysisyfirbragði og segjast vilja þessu máli vel, þegar allir vita, að hann er að reyna að draga málið á langinn, nefnilega að reyna að fá því frestað til haustsins, sem þá um leið hlýtur að verða þess valdandi, að Ólafsfjörður getur ekki notað þann möguleika, sem hann hefir nú til þess að virkja Garðsá. Við vitum, hvað sú afgreiðsla málsins þýddi, sem hér var reynt að koma fram, að vísa málinu til nefndar. Það þýddi ekki endilega, að málið yrði endanlega drepið, heldur hitt, að málið yrði ekki afgr. fyrir þingfrestun. En það má á sama hátt segja, að aldrei sé hægt að segja um mál, sem vísað er til ríkisstj., að það væri endilega fyrir fullt og allt drepið, því að það gæti vitanlega risið upp á næsta þingi. En að svo miklu leyti sem hægt er að segja, að þetta þing endi við þingfrestun, þá var það að vísa málinu til n. nú ekkert annað en að eyða málinu a. m. k. til næsta hausts, sem þýddi það, að svipta Ólafsfjörð möguleika, sem hann hefir nú til að koma þessu verki í framkvæmd.

Hv. 1. þm. Árn. var að tala um, hvort ég óttist, að ef rannsókn yrði látin fara fram til haustsins á því, þá yrði það málinu til aldurtila, og hann segir, að þar sem svo virðist vera með mig, standi hann enn fastar á því, að málið verði rannsakað til haustsins. Það er síður en svo, að ég óttist þetta. Ég er sannfærður um, að ef hv. fjvn. vildi afgr. málið og ríkisstj. rannsakaði það svo til hausts, þá mundi hún komast að þeirri niðurstöðu, að rök þeirra manna séu rétt, sem með málinu eru. Sú rannsókn getur ekki leitt annað í ljós. En ég óttast, að þeim tilgangi, sem á að ná með samþykkt þessarar þáltill., verði ekki náð, ef samþykkt hennar er frestað til hausts. Og ég vil taka undir það, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, að ríkisstj. hefir það fullkomlega á sínu valdi að rannsaka allt, sem þetta mál snertir, þó að þáltill. verði samþ., því að hér er ekkert um annað að ræða en heimild fyrir ríkisstj. til að ákveða, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir láni, sem Ólafsfjörður kann að taka. Það er algerlega á valdi ríkisstj., hvort heimildin verður notuð eða ekki.

Ég get ekki séð nein rök fyrir því, að það þurfi að binda þessar tvær till. til þál. saman, þessa till. og þá, sem hann var að tala um viðkomandi leiðslu rafmagns frá Soginu. Ég sagði það í minni fyrri ræðu og segi það enn, að það er síður en svo, að líklegt sé, að sú þáltill., sem sá hv. þm. flytur og hann nefndi, yrði fremur felld í haust, þó að þessi þáltill. yrði samþ. nú, nema síður væri, af því að það er ekki líklegt, að hv. þm. beiti sér á móti þeirri till. hv. 1. þm. Árn., ef hún að áliti fjvn. hefði við rök að styðjast. En ég sagði jafnframt, sem þessi hv. þm. og forseti Nd. hneykslaðist á, að þáltill. gætu fengið margskonar afgreiðslu. Þær geta fengið fernskonar afgreiðslu: Verið samþ., felldar, vísað til ríkisstj. eða vísað frá með rökst. dagskrá, þannig að það er ekki nein óumflýjanleg nauðsyn, að afgreiðsla þessarar þáltill. um ríkisábyrgð fyrir láni fyrir Ólafsfjörð verði á sama hátt og afgreiðsla þáltill. hv. 1. þm. Árn.

Ríkisstj. fær fullkomið tækifæri til að rannsaka þetta mál áður en heimildin yrði notuð, þó að þáltill. verði samþ. nú. Og það leiðir af sjálfu sér, að rökin fyrir að nota slíkar ábyrgðarheimildir sem þessa eru ekki í öllum tilfellum fullkomlega rannsökuð af hæstv. Alþ. eða hv. fjvn. í hverju tilfelli, sem slíkar heimildir eru samþ. Það, sem til greina kemur, er um samþykkt er að ræða á svona heimildum, er það, að Alþ. setur sig ekki á móti því, að ríkisstj. gangi í slíkar ábyrgðir. Það er eðlilegt að heimila ríkisstj. að ganga í slíkar ábyrgðir gegn þeim tryggingum, sem stj. metur gildar. Þá er það á valdi ríkisstj., hvort hún gengur í slíkar ábyrgðir eða ekki. Og hér er að sjálfsögðu um slíkt að ræða. Ef ríkisstj. kemst að þeirri niðurstöðu, að þessi leið sé ekki heppileg, en t. d. heppilegra að leiða rafmagn til Ólafsfjarðar frá Laxá (sem ekki mun þó vera heppilegra), þá hefir ríkisstj. fullkomlega á valdi sínu að neita um ábyrgðina eða fara aðrar leiðir í málinu.

Það er líka rétt hjá þessum hv. þm., að það hafa farið fram nýjar kosningar síðan árið 1936. En það er hinsvegar engin ástæða til þess að álíta, að sú niðurstaða, sem sú núverandi fjvn. kæmist að, yrði önnur en niðurstaða fjvn. 1936. Sömu ástæður eru nú til að ætla, að hv. þingheimur neitaði ekki um að veita ríkisstj. þá ábyrgðarheimild, sem Alþ. veitti 1936. Og það, sem mér virðist þess vegna, að hv. þm. verði að taka til greina, er, að þessi till. um ábyrgðarheimild handa Ólafsfjarðarhreppi hefir verið rannsökuð í fjvn. Alþ., þó að í þeirri n. sitji nú ekki þeir sömu menn og þá sátu í henni og þó að fram hafi farið nýjar kosningar. Mundi t. d. þessi hv. þm. telja, að ekki væri líklegt, að fjvn., sem nú situr, mundi komast að sömu niðurstöðu um eitthvert atriði, sem fjvn. á síðasta þingi komst að, þó að hinsvegar hv. þm. viti, að kosið er í fjvn. á hverju þingi, án tillits til þess, hvort kosningar hafa farið fram síðan á siðasta þingi áður? Flokkaskipting á þingum, ef ekki fara fram kosningar á milli þeirra, er svo svipuð, að það hefir ekki áhrif á gang mála að þessu leyti, þó að kosið sé í fjvn. á hverju þingi fyrir sig.

Svo kemur hv. 1. þm. Árn. að mér persónulega og segir, að ég hafi verið æstur í skapi, ókurteis, hafi æst mig upp og flutt málið á óviðeigandi hátt, og að það kunni svo að vera, að mér gæti skjátlazt. Það má nú vera, að mér geti skjátlazt. En ég veit ekki til, að ég hafi sagt eitt einasta orð til þessa hv. þm. í minni fyrri ræðu, sem hann gæti hneyklazt á. Hið eina, sem ég sagði í þá átt, var, að hann með þessari till. sinni vildi eyða málinu. Því að það þekkja allir, að það að visa málum til n. þýðir stundum sama sem að eyða þeim.

Eitt var, sem hv. 1. þm. Árn. sagði og ég hefði ekki minnzt á nema að gefnu tilefni, og það var, að hann viðhafði ekki almennar kurteisisreglur, er hann sagði, að þessi þáltill. væri flutt, ekki aðeins af hinum eiginlegu þm. Eyf., heldur einnig af þm., sem væru þar einhverjir fylgihnettir. Ég hygg, að þessi hv. þm., sem hneykslaðist á orðalagi minnar ræðu áðan, gæti á þinglegan hátt sagt, hverjir hefðu flutt þessa þáltill.

Í sinni fyrri ræðu vildi hv. 1. þm. Árn. byggja sinn málflutning á misritun, sem er í þáltill. Það var ekkert við því að segja, ef hann hefði ekki vitað betur. En ég las fyrir honum símskeyti og bauð honum að lesa það sjálfum. En hann hefir ekki gert það. Misritunin er í því fólgin, að sagt er í grg. þáltill., að tilætlunin muni vera að hefja á þessu sumri „undirbúning byggingar stöðvarinnar“. En í símskeytinu stendur, að það eigi að hefja virkjunina í sumar, ef ábyrgðin fæst fyrir þessu láni. Ef hv. 1. þm. Árn. hefði viljað leita sannleikans í þessu máli, þá hefði hann getað lesið skeytið. En í stað þess viðhefir hann skæting og segir, að ekki sé einu sinni hægt að flytja málið rétt inn í þingið. Ég hefi þess vegna ekki viðhaft ósæmilegan málflutning, og þessi hv. þm. hefir enga ástæðu til þess að vera með persónulegan skæting í minn garð út af neinu slíku. Og þó að hann e. t. v. hefði tilhneigingu til að vera með einhverjar hótanir í minn garð, eins og hann gæti sagt mér eitthvað fyrir um það, hvort eða hvar ég skuli standa, þá segi ég bara það, að ég ætla hvorki að standa hér né annarstaðar upp á hans náð. Og þó að hann kannske geti nú sagt, að ég hafi sagt eitthvað harðort til hans, þá er það bara að gefnu tilefni. Og ég vil heldur greiða mínar skuldir að fullu, þó að sumir geti látið sér nægja 5%.