26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (3480)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég er að ýmsu leyti samþykkur hv. 8. landsk., eins og ég líka er samþykkur hv. 1. flm. till. á þskj. 6l um raforkuveitu til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar. En við þá till. liggja fyrir ýmsar brtt., þar á meðal frá mér og hv. þingmönnum Rang., sem allar stefna að einu marki, sem sé því að hraða sem mest framkvæmd þeirrar hugsjónar að fá rafveitu frá Soginu yfir Suðurlandsundirlendið, Borgarfjörð, Reykjanesskaga og til Vestmannaeyja. Það hefði að mínum dómi verið ákaflega æskilegt, ef hið háa Alþ. hefði séð sér fært að afgr. þessi mál, og enn þá æskilegra, ef efni og ástæður ríkisins hefðu leyft, að hafizt væri handa í þessu efni bráðlega. En þrátt fyrir það, þó svo sé ekki, sé ég samt enga ástæðu til þess sem Sunnlendingur að leggjast á móti samþykkt þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 211. Ég sé ekki, að við Sunnlendingar séum á neinn hátt í hættu settir með okkar áhugamál, þó að Ólafsfirðingar fái ríkisábyrgð fyrir þessari tiltölulega litlu upphæð, sem, ef rétt er upplýst hér í grg. till. og af flm. málsins, þýðir það, að Ólafsfirðingar geti komið á sinni sérstöku rafvirkjun þegar á þessu ári.

Ólafsfjörður er, eins og menn vita, eitt hið alefnilegasta fiskiþorp landsins og mjög efnilegt kauptún. Og þess vegna vildi ég fyrir mitt leyti lýsa yfir því, að þó að ég svo feginn vildi fá allt þetta samþ., sem ég taldi upp í byrjun minnar ræðu, á sama þingi eða áður en Alþ. verður frestað, þá kemur mér ekki til hugað að leggjast á móti því, að þessi þáltill. gagnvart Ólafsfirði verði afgr. nú áður en þingi verður frestað. Og ég hygg, að sama sinnis séu ýmsir fleiri hv. þm., sem ekki eiga heima á Norðurlandi, þó að þeir standi ekki beinlínis að flutningi þessarar till. Við erum sem sé, Sunnlendingar, að engu bættari, þó að Ólafsfirðingar sitji við sín rafmagnsmál í ólestri, eins og hér er lýst í grg. þáltill. En Ólafsfirðingum er nokkur bagi ger, ef settur er fyrir þá fótur í þessu máli.

Ég ætla ekki að blanda mér neitt að öðru leyti inn í þessar umr. En ég vildi nota tækifærið til þess að lýsa yfir þessari skoðun minni, þar sem ég hefi ásamt öðrum hv. þm. borið fram óskir og vonir Vestmannaeyinga í sambandi við Sogsvirkjunina og þá till., sem hv. 1. þm. Árn. minntist á á þskj. 61.

Ég vil hvetja hv. þm. og hæstv. ríkisstj. til þess að gera það, sem unnt er í því, að landsmenn yfirleitt geti notað raforku frá vatnsföllum landsins. Og þar sem svo stendur á eins og hér um Ólafsfjörð, að hann hefir þarna vatnsfall að sagt er hæfilega stórt til rafvirkjunar, þá álít ég það hreint og beint skyldu þingsins, ekki sízt á þessum alvarlegu tímum, að gera ekkert til þess að drepa því máli á dreif eða slá því á nokkurn hátt á frest, að Ólafsfirðingar geti komið sínum rafveitumálum í framkvæmd samkvæmt því, sem hér liggur fyrir.