26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3484)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Flm. (Bernharð Stefánsson):

Það hefir verið talað um, að við flm. þessarar till. höfum hleypt kappi í málið. En mér virðist, að andstæðingar þessa máls beiti meira kappi, og það slíku ofurkappi, að mjög er óvanalegt um ekki stærra mál.

Hv. 2. þm. Árn. talaði m. a. um það, að meðferð þessa máls væri óvenjuleg og óviðeigandi, og færði það til, hve málið hefið verið tekið snemma á dagskrá, svo og að fellt var, að því yrði visað til n. Ég man oft eftir um mál, sem legið hefir á, að fellt hefir verið að visa þeim til n., og það hafa jafnvel verið stórmál, sem hafa verið afgr. þannig gegnum þingið. Eins hefir verið tekið fram, að sérstakar ástæður voru fyrir hendi, þannig að ekki var eins mikil ástæða til að vísa þessu máli til n. eins og oft hefir verið um önnur mál, þar sem ekki eru liðin nema 3 ár síðan málið var fyrir fjvn. og þá stutt af henni, eins og hv. 7. landsk. og fleiri hafa bent á. Hv. 2. þm. Árn. var þá, eins og nú, í fjvn. og var formaður hennar og frsm. fjvn. um fjárl., og ef ég man rétt, þá mælti hann sem slíkur með þessari ábyrgðarheimild. Þetta finnast mér svo sérstakar ástæður, einmitt að búið er að samþ. það áður, að það afsaki það fyllilega, þótt málinu hafi verið hraðað. Ég verð að líta svo á, að þegar hæstv. Alþ. hefir heitið einhverjum aðila í landinu ákveðnum fríðindum, þá eigi Alþ. ekki að haga sér eins og óreiðumenn gera, að svíkja gefin loforð. Ég lít svo á, að þar sem hæstv. Alþ. samþ. ábyrgðarheimild fyrir Ólafsfjarðarkaupstað 1936, þá sé það loforð, sem sjálfsagt sé, að hæstv. Alþ. standi við, þótt svo sé, að af því að ábyrgðarheimild sú var í fjárl., sem ekki gilda nema eitt ár, þá verði formsins vegna að ganga svo frá því, að samþ. hana á ný. Nú er heimildin borin fram sem sérstakt þingmál, en þess hefði ekki þurft, ef heimildin frá 1936 hefði verið borin þannig fram á sínum tíma og þá gilt enn. Aðalástæðan, sem borin er fram á móti till., er, að ýmsir aðrir hafi borið fram svipaðar till., sem ekki hafi verið teknar til afgreiðslu. Það er engan veginn hægt að telja það sjálfsagt að láta slíkt marka afstöðu manna til mála. Það er þekkt tilfinning í mannlegum hjörtum, sem veldur því, en það sæmir yfirleitt betur að láta ekki mikið á þeirri tilfinningu bera.

Ég er dálítið undrandi yfir, hve mjög er fjölyrt um þetta, að ómögulega megi samþ. þessa till. af því, að hinar till. séu ekki samþ. líka. Við þm. Eyf. bárum fram brtt. við þessa till. snemma á þinginu, og við höfum ekki rekið frekar á eftir því en aðrir hv. þm., að málið væri tekið á dagskrá. Nú höfum við samt sérstaka ástæðu til að leggja áherzlu á afgreiðslu till. Mér hefir borizt símskeyti frá lögreglustjóranum í Ólafsfirði um það, að nú væri hægt að framkvæma þetta, ef ábyrgðin fengist. Því hljóta allir að sjá, á hvaða grundvelli málið er lagt fram, en sé það ekki samþ. nú, þá er sá grundvöllur búinn að vera. Ég kann miklu betur við, að menn leggist beinlínis á móti málinu og greiði atkv. á móti því, heldur en að ætla að hafa þá aðferð, sem hér stendur til að notuð sé, því ekki þýðir að ætla að taka þetta mál upp á sama grundvelli í haust.

Ég skal ekki neita því, að þótt till. verði felld nú, þá megi Ólafsfirðingum samt e. t. v. takast að koma upp rafstöð siðar, e. t. v. í sambandi við ríkisábyrgð fyrir fleiri raflínur, en þeir möguleikar, sem till. nú byggist á, möguleikarnir til að fá lán og möguleikarnir til framkvæmda, verða þá komnir út í veður og vind.

Ég ætla að vona — og það virðist hafa komið fram í atkvgr. um þetta mál — að hæstv. Alþ. samþ. till., svo að þetta nauðsynjamál Ólafsfjarðar, sem sannarlega hefir ekki verið neitt óskabarn fjárveitingavaldsins, nái fram að ganga, og vona, að hin önnur mál, sem eru í sambandi við þetta, fái góða afgreiðslu í haust, en ekki verða þær tillögur frekar samþykktar þótt þessi falli. Ég sé ekki, að það geti á nokkurn hátt skaðað þau mál, að þessi tillaga sé samþykkt.