26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3495)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Jónas Jónsson:

Mér fannst tilhlýðilegt, úr því að ég er form. fjvn., að ég segði nokkur orð, áður en þetta mál er afgr. Við mundum allir óska þess, að hægt væri að gera rafveitu fyrir Ólafsfjarðarkauptún. Við mundum vilja raflýsa hvern einasta bæ á landinu, ef við bara hefðum efni á því. En ég vil mæla varnaðarorð til ýmissa manna, sem mest beita sér hér fyrir því að afgreiða þetta mál. Og ég geri það alveg án tillits til þess, hvort málið er í sjálfu sér gott eða ekki.

Það hefir verið tekið fram í blöðum Sjálfstfl. undanfarið, að gæta yrði meiri varúðar en hingað til í meðferð opinbers fjár. Ekki hefir sízt verið lögð áherzla á þetta í blaði, sem talið mun, að standi bak við þann hv. þm., sem harðast hefir barizt hér fyrir þessari ábyrgð, og félaga hans. Þar hefir verið haldið stíft fram, að engin gætileg fjármálastjórn væri hugsanleg nema fyrir þeirra tilverknað. Ég vil segja það, að hæstv. fjármálaráðherra hefir tekið við talsvert skóluðu liði í gætilegri fjármeðferð. (HV: Skóluðu?). Já, skóluðu í öðrum hlutum en olíukarlinn og hans lið.

Þegar hin nýja stjórn tók við 1934 af Ásgeiri Ásgeirssyni, voru ábyrgðir ríkissjóðs búnar að skapa mesta öngþveiti. Það hafði verið sótt fast á í stjórnartíð hans, og mér er það ljóst, að í fyrstu hafði hann bezta vilja á því að hamla móti, halda í horfinu um fjárstjórnina. En reyndin varð sú innan skamms, að hann réð ekki við neitt, og hverjum manni fannst hann gæti gengið í ríkissjóðinn og skammtað sér sjálfur eða náð með hrossakaupum hverju, sem hann hafa vildi. Þá hlóðust upp ábyrgðirnar, sem þingið var síðan mörg ár að burðast með og hafði gengizt undir móti vilja sínum.

Þó að kosningarnar 1934 gæfu ekki mikinn meiri hl., stóð hann fast saman, og ég skal viðurkenna, að fyrsta árið beitti hann dálítilli hörku til þess að kippa ýmsu í lag og láta ekki draga taumana úr höndum sér. Ég var einn í þessum meiri hl. og átti minn þátt í þessu, en það varð að taka fast á því. Þá varð einskonar samkomulag um, að í eitt kjördæmi skyldi ekki koma einn eyrir til vegalagninga, — til þess að sýna sýslubúum, að þeir gyldu þess, hvernig þeir hefðu kosið. En svo kom náttúran, sjórinn, og gerði tjón, og allir urðu þá sammála um að hlaupa undir bagga. Í annað kjördæmi átti í refsingarskyni að láta einungis 4 þús. kr., en önnur kjördæmi fengu nokkru meira. En svo kom upp úr dúrnum, að vegaviðhaldið varð þar 35 þús. kr. á einu ári. Og bráðlega áttuðu menn sig á því, að svona refsiaðgerðir væru ósköp þýðingarlitlar, og hættu þeim. En það hafði verið tekin upp ný fjármálastefna, algerlega ólík þeirri, sem rekin var í stjórnartíð Ásgeirs Ásgeirssonar og Þorsteins Briems, bæði réttlátari og harðari við sjálfa sig. Það kom annar blær á afgreiðslu fjárlaganna; þó að þau hafi vaxið, þá er það ekki af léttúð né hrossakaupum.

Hrossakaupin, sem ég býst við, að séu komin á bak við í þessu máli, eiga engan rétt á sér. Hrossakaupin hafa verið fordæmd í eitt skipti fyrir öll og eiga að hverfa úr þessari stofnun.

Það er ekki ofsagt, þó að einhverja furði á, að við, sem stóðum að þessari nýju fjármálastefnu, séum skólaðir eða tamdir í meðferð fjár og ætlumst nú til jafngóðrar forystu í þeim atriðum af hæstv. fjmrh. og við höfum haft, eða ennþá betri, ef þess kynni að mega vænta. En þá verðum við að sjá einhvern lit á því í þessu máli hjá hæstv. fjmrh. og þeim hv. þm., sem honum standa næstir. Ella mundi ég neita að eiga sæti og formennsku í fjvn. á síðara þingi þessa árs, ekki af því, að það mundi hryggja svo þessa hv. þm., þó að ég færi, heldur af því, að ég teldi tíma mínum og kröftum sóað til ónýtis í starf, sem Alþingi væri handvíst til að rífa allt niður á eftir.

Mig undrar ekkert, þó að 1–2 þingmenn hafi slegið sér lausum í þessu máli, en mig undrar það, ef heimingur þingmanna lætur til leiðast í einskonar kátínu að taka þátt í þessum leik. Til þeirra mæli ég þessum varnaðarorðum, svo að þeir viti, hvað þeir eru að gera. Það er ekki hægt að búast við, að unnt verði að framkvæma til fullnustu á stuttum tíma allar þær kröfur, sem fram hafa komið í þessum málum. Ástæðan til þess er fátækt landsins, og ekkert annað. Þessi fátækt landsins veldur því, að það eru ekki minnstu líkur til þess, að ein einasta af þessum till. komi til framkvæmda, þó að þær væru samþ. í kvöld, ekki á þessu ári, og kannske ekki á næsta ári. Það er því það einasta, sem hafzt getur upp úr þeim skrípaleik, sem viðhafður hefir verið hér í kvöld, að kasta bletti á Alþ. og hæstv. fjmrh., sem ég efast ekki um, að vilji af fullum krafti og myndarskap starfa í því embætti. En ábyrgðin á þeim skrípaleik, sem hér hefir verið leikinn í kvöld, hvílir á ykkur, sem brotið hafið þau grið, sem ríkt hafa undanfarið í réttlátri fjármálastjórn milli héraða, sem getur orðið til þess, að þingið verði eins ábyrgðarlaust aftur og það eitt sinn var, þegar hver ríkisábyrgðin var samþ. á fætur annarri og þegar hver loddari, sem fór úr landi með slíka ábyrgð, fékk neitun í hverjum bankanum ettir annan. Mér finnst, að þessir þm. ættu á þessum stað að minnast þess, að Reykjavík er búin að ganga með sinn borgarstjóra nú nýlega með slíka ríkisábyrgð land úr landi, borg úr borg og banka úr banka, og er búin að reyna að fá lán, en hefir verið neitað, af því að ekki var treyst okkar gjaldgetu, sem hefir verið fyrir okkar fátækt og ekkert annað. Svo virðast þessir menn halda, að það sé það, sem landinu riði mest á, að leysa öll bönd og bregða drengskap þeim, sem verið hefir undirstaðan að því, að við höfum hætt að samþ. heimskulega mikið af ríkisábyrgðum. Svo er neitað um afbrigði í þessu máli ofan á annað, sem fram hefir komið. Það skal verða séð um, að þeir, sem fyrir því hafa gengizt, hafi ekki nema leiðindi af þeirri málsmeðferð. Það skal engin rafveita koma í Ólafsfirði út af þessu máli. Liggur til þess sama ástæða og lá fyrir því, er einn mætur hv. þm., Hannes heitinn Hafstein, sagði á Alþ., þegar gerð voru hrossakaup um brúna á Ólafsfjarðarós. þá felldi hann það mál með sínu atkv., af því að hann vildi ekki með sínu atkv. kasta bletti á þingið með hrossakaupum.