26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (3496)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Mér virðist, að það mætti ráða það af því út af fyrir sig, sem sumir hv. þm. sagt hafa hér í kvöld, að það væri ekki 50 þús. kr. ábyrgð, sem hér væri um að ræða, heldur a. m. k. 50 millj. Svo gífuryrtir virðast mér hv. þm. gerast út af því ódæði, sem viss hluti þm. gerir sig líklegan til að fremja hér með því að samþ. heimild þessa til að veita ríkisábyrgð, sem þó hefir þegar verið samþ. af þessu háa Alþ. Hér er ekki um annað að ræða en endursamþ. á ríkisábyrgð, sem hefir verið veitt áður. Og meira að segja, sú ábyrgð var ekki veitt á þeim ábyrgðarlausu tímum, sem hv. síðasti ræðumaður talaði um, heldur einmilt eftir að fjárstjórnin og samstarf ríkisstj. og fjvn. var komið í það mjög svo lofsamlega horf, sem hv. þm. talaði um; það var. reyndar árið 1936. Ég sé því ekki, að hér sé farið fram á neitt ódæði, þó að þessi heimild sé veitt, sérstaklega þegar litið er á það, að hér er um stað að ræða, sem þegar hefir komið upp hjá sér raflýsingu með tækjum, sem þeim verður nú bannað að nota. Það er því ekki nema um þrennt að gera fyrir Ólafsfirðinga, annaðhvort að hverfa frá rafljósum og fara að nota olíuljós, eða framkvæma þessa virkjun, eða í þriðja lagi að kosta ærnum peningum til þess að endurbæta þá rafveitu, sem nú er þarna í Ólafsfirði, og kasta því fé þá í sjóinn.

Mér virðist, að þegar ekki er um meiri upphæð að ræða en hér er um að ræða, og þetta hefir þegar verið samþ. af Alþ. áður, þá liggi ekkert annað beinna við heldur en að endurtaka nú þessa samþykkt. Og að setja þessa 50 þús. kr. ábyrgð í samband við það fyrirhugaða rafveitukerfi, sem hugsað er að leggja út frá Sogsvirkjuninni, virðist mér svo fjarstætt sem frekast má verða, vilji menn gera sér einhverja grein fyrir, hver kostnaðurinn er í hvoru tilfellinu fyrir sig. Ég geri ráð fyrir, að hann yrði í sambandi við Sogsvirkjunarrafleiðslurnar, sem hér hefir verið um rætt, ekki tífaldur, heldur tvítugfaldur á við upphæð þá, sem hér er reynt að fá ríkisábyrgð fyrir, sem sumir hv. þm. leggja svo ríka áherzlu á að setja Sogsvirkjunarrafveituna í samband við.

Ég legg á móti því, að þetta mál verði látið stranda nú á þinginu. Og ég mun enn greiða atkv. með því, að þessi ábyrgðarheimild verði veitt.