26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (3498)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Einar Árnason:

Það hefir verið talað um, að nokkurt kapp væri í þessu máli. Ég skal viðurkenna, að mér virðist það á ýmsu því, sem hér hefir verið sagt, að nokkurt kapp væri í sambandi við þetta mál hjá hv. þm. En ég sé ekki, að það kapp hafi verið mest af hálfu þeirra manna, sem staðið hafa að flutningi þessarar þáltill., þó að ég kannske geti viðurkennt það, að það hafi ekki verið haldið eins vel á þessu máli eins og hvað málið er gott.

Hv. 2. þm. Árn. var að veita hæstv. forseta ákúrur fyrir það, að hann hefði tekið þetta mál út úr öðru máli. Þetta á sér engan stað. Þetta mál hefir alls ekki verið tekið út úr öðru máli, því að hér er um að ræða byggingu rafstöðvar í Ólafsfirði. En það, sem ýmsir hv. þm. hafa verið hér að tala um, er raforkuleiðsla frá Sogsvirkjuninni, sem er allt annað mál.

Ég vil minna á, að þegar Sogsvirkjunin var sett upp, þá held ég, að margir okkar, sem stöndum að þessari þáltill., höfum rétt upp höndina til þess að ríkið gengi í ábyrgð fyrir láni til þeirrar virkjunar. Hér er aðeins um að ræða að ábyrgjast lán til þess að koma upp rafveitu fyrir kauptún. En þáltill. sú, sem rædd hefir verið hér í sambandi við þetta mál, um raforkuleiðslur frá Sogsvirkjuninni, væri þá fyrst hliðstætt mál rafveitumálum Ólafsfirðinga, ef búið væri að koma upp rafveitu hjá þeim og um það væri að ræða að fara að dreifa rafmagninu þaðan út um héraðið í kring. Það er því alls ekki sama eðlis og till. sú, sem fyrir liggur, það mál, sem dregið hefir verið hér inn í þetta mál nú við umr. Það geta því ekki verið ástæður gegn þessu rafveitumáli Ólafsfirðinga, þó að raforkuleiðslumálin í sambandi við Sogsvirkjunina séu ekki leyst samhliða því. En það virðist samt hafa verið eina ástæðan, sem haldið hefir verið fram gegn þessu máli.

Mér datt ekki í hug að vera á móti því, að afbrigði væru veitt frá þingsköpum um að taka fyrir til umr. brtt. um raforkuleiðslurnar frá Sogsvirkjuninni, sem bornar voru fram í kvöld, enda þótt verið væri að blanda þar saman óskyldum málum, því að ég sá, að fjmrh. var innan handar að gera upp á milli þessa efnis, sem í till. er, og brtt., sem fram komu við þetta mál, af því að það voru tvö óskyld efni í till. og brtt. Þó að þáltill. og brtt. við hana hefðu verið samþ., þá gat fjmrh. vel tekið þessa 50 þús. kr. ríkisábyrgð út úr handa Ólafsfirði. Og það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði um þetta mál. Það er hörmulegt, að slíkt ofurkapp í sambandi við þetta mál skuli hafa getað orðið út af einni 50 þús. kr. ábyrgð.