17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

71. mál, Varmahlíð í Skagafirði

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Landbn., eða meiri hl. hennar, hefir orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, en hv. þm. A.-Húnv. hefir hinsvegar verið á móti frv., og geri ég ráð fyrir, að hann geri grein fyrir sinni afstöðu.

Ég skal aðeins taka fram, að ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi að nota þessa heimild til eignarnáms eða leigunáms til þess að fá það land, sem þarna er um að ræða og verður að fá til afnota fyrir væntanlegan héraðsskóla, því ég býst við, að samningar náist við eigandann. En okkur þótti vissara og réttara að fá þessa heimild, en vitanlega verður samningaleiðin reynd til hins ýtrasta. Allir þeir, sem athugað hafa þetta, eru sammála um, að það sé nauðsynlegt fyrir væntanlegan skóla að fá þetta land, og þá er réttast, að það fáist sem fyrst, áður en búið er að reisa þar mannvirki, sem ekki eru í samræmi við skólabyggingar þær, sem á að reisa þar.