26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (3502)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Bergur Jónsson:

Það var eitt, sem kom fram í röksemdum hv. 7. landsk. (GÞ) — sem hefir, þótt hann sé ekki fyrsti flm. þessa máls, gert sig að aðalforsvarsmanni þessarar þáltill. — hann sagði, að það væri ekki hættulegt að samþ. þessa þáltill., af því að hér væri um ábyrgðarheimild að ræða. Ég lét þetta þá afskiptalaust. Svo kom hann aftur með þetta sem rök fyrir því, að óhætt væri að samþ. þessa till., og benti jafnframt á, að það væri hægt að setja öll möguleg skilyrði fyrir því, að ábyrgðin væri veitt. Ég hélt, að þessi hv. þm. vissi, að það eru yfirleitt aldrei veitt leyfi fyrir ríkisstj. til að ganga í ábyrgðir, nema að því hafi verið horfið að veita þær ábyrgðir. Ég man ekki heldur eftir því, að nokkru sinni hafi verið samþ. l., er heimiluðu ríkisstj. að ganga í ábyrgð fyrir láni, þar sem það hafi verið öðruvísi orðað en að ríkisstj. væri þetta „heimilt“.

Og þessi hv. þm. talar um, að það séu skilyrði, sem ríkisstj. geti sett fyrir ábyrgðinni. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er bókstaflega alveg skilyrðislaus. Það er skilyrðislaus heimild fyrir ríkisstj. um að ábyrgjast fyrir Ólafsfjarðarhrepp þessar 50 þús. kr. (GÞ: Hún getur sett skilyrði.) Hún getur það ekki. Ríkisstj. er skyldug til þess að hlýða þáltill., ef hún verður samþ., alveg eins og það er alltaf talið skylt fyrir ríkisstj. að hlýða öllum þeim heimildum, sem byrja á því, að ríkisstj. sé heimilt þetta og þetta, og svo taldar upp ábyrgðirnar, sem þar er um að ræða.

Það getur vel verið, að þessi hv. þm. hafi komið fram með þessar rökfalsanir til þess að fylgja málinu eftir, án þess að vita, að þetta var svona. Ég er sannfærður um, að hæstv. fjmrh. velt þetta. Þó tók hann fram í sinni ræðu, að hér væri aðeins um heimild að ræða.

Þegar athugað er, hvernig þessu máli er fylgt fram að öðru leyti, þar sem tekin hefir verið upp sú einstaka aðferð, sem ég veit ekki, að tekin hafi verið upp fyrr, að neita um afbrigði fyrir brtt. af þeim sömu mönnum, sem eru að reyna að koma fram afbrigðilegri meðferð á þessu máli hér á Alþ. með því að taka út úr eitt fjárlagaatriði, án þess að það sé látið fara til fjvn. til rannsóknar, og þar með gera þinghluta, sem ekki var meiningin að gera að fjárlagaþingi, að fjárlagaþingi um heimild fyrir einstakt kjördæmi, þá má það beita furðulegt. Þessir sömu menn stóðu líka í dag fyrir þeirri einkennilegu aðferð, að neyta minnihlutatölu í Sþ. til þess að drepa frv. Það er líka óvanalegt, enda höfðu þeir þar í frammi óvanalegan rökstuðning fyrir máli. sem kemur í bága við allar venjur og reglur í afgreiðslu mála. Þar sem þeir hafa staðið að því að neita um afbrigði, þá er ekki nema eðlilegt, að stj., sem á að taka við þessari heimild, lýsi því yfir, eins og hæstv. atvmrh. hefir gert, að hún telji sig ekki bundna við till., þó samþ. verði, þar sem aðeins sé um heimild að ræða.