26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3505)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég held, að hv. þm. V.-Húnv. hafi misskilið þetta mál, því hann talaði um það eins og upphæð úr ríkissjóði, sem greiða ætti. Ég veit ekki til, að hér sé um það að ræða, að ríkissjóður eigi að greiða neitt, heldur er hér að ræða um að veita ábyrgð á 1/3 kostnaðar við rafveitu í blómlegri byggð, sem engin ástæða er til að ætla, að ríkissjóður biði halla af. Þar við bætist, að þingið hefir, eins og ég sagði áðan, áður samþ. þessa till. með shlj. atkv. 1936.

Ég kem þá að hv. þm. Barð. Hann veit, að hér er aðeins um heimild að ræða. Það er misskilningur hjá hv. þm., að ábyrgðir séu aldrei veittar nema sem heimildir. Ég hefi flett upp í Stjórnartíðindunum, þar sem eru í. um virkjun Sogsfossa, og þar segir í 4. gr., að ríkisstj. ábyrgist lán handa Rvíkurbæ til þeirra framkvæmda, sem um getur í 1.–3. gr. Það er alveg tvímælalaus lagasetning um, að ábyrgðin skuli veitt, og það sýnir, að greinarmunur er gerður á því, hvort um heimild er að ræða eða fyrirmæli Alþ. Það stendur því óhaggað, sem ég sagði, að það er á valdi ríkisstj., hvort hún veitir þetta eða ekki, að fengnum þeim upplýsingum, sem hún telur nauðsynlegt að fá til þess, að tryggt sé, að ekki sé lagt út í óhæfilega áhættu í sambandi við þessa 50 þús. kr. ábyrgð.