26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (3516)

86. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. til þál., sem hér liggur fyrir. Ástæðan til þess, að hún er fram komin, er fyrst og fremst sú, að það liggja fyrir þinginu mörg allstór mál, sem ástæða þykir til, að tími fáist til að rannsaka nánar. Þarf ég ekki að telja þau mál upp. Stærstu málin eru vitanlega fjármálin. Það er ennfremur augljóst, þar sem nú hafa orðið stjórnarskipti og nýir menn tekið við sumum stjórnardeildunum, að þeir telji það heppilegt að fá tíma til að rannsaka þau mál og undirbúa áður en þingi verður að fullu lokið á þessu ári. Er alveg sérstök ástæða í því sambandi að benda á fjármálin og afgreiðslu mála í sambandi við þau. Ég skal ekki fara út í umr. um þá till., sem var verið að samþ., en í þeim komu fram raddir um, að þingið þyrfti að taka fjármálin þeim tökum, sem tímarnir gæfu tilefni til. Það kom í þessum umr. fram kvíði fyrir því, að Alþ. ætlaði að fara að taka upp önnur vinnubrögð viðvíkjandi fjármálum en það hefir haft. Ég held, að þetta sé ástæðulaus ótti, en hitt er jafnaugljóst, að ef á að taka fjármálin föstum tökum, þá hlýtur það að koma við ýmsa. Er þá fyrsta reglan, sem hafa verður í því sambandi, almennt réttlæti. Menn eru viðkvæmir fyrir misréttinu, en menn munu tvímælalaust þola, að tekið sé föstum tökum á fjármálunum sem öðrum málum, ef sami réttur gengur yfir alla. Og ég fullyrði, að stjórnin muni vera einhuga um það að undirbúa fjárlögin í þessum anda. En það eru einmitt þessi mál, sem þarf að vinnast tími til að rannsaka, svo að hægt verði að leggja þau vel undirbúin fyrir þingið í haust, í samræmi við það ástand, sem þá verður ríkjandi. Það er rétt að minnast á það í sambandi við þessa þingfrestun, að það virðist svo sem ástandið sé þannig í heiminum, að enginn geti séð, hvað framtiðin geymir. Við vitum því lítið, hvaða ráðstafanir við kunnum að þurfa að gera fyrir næsta ár. Við vonum, að sumarið muni leiða eitthvað í ljós um þetta og að þingið geti í haust, með tilliti til þess ástands. sem þá verður, tekið til afgreiðslu þessi mál með meira öryggi en mögulegt er að gera nú.

Ég vil að lokum óska eftir því, vegna þess, hve áliðið er nætur, að menn hafi um þetta mál stuttar umr.