02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (3525)

169. mál, betrunarhús og vinnuhæli

*Flm. (Eiríkur Einarsson):

Ég skal ekki gera mikið til þess, að umr. verði langar um þessa till. Ég skal í því sambandi vísa til stuttrar grg., sem fylgir till., þar sem tekin eru fram meginatriði þess, sem fyrir mér vakir. En annars vil ég árétta það, sem ég aðeins drep á í grg., að þetta svokallaða vinnuhæli, sem er á Litla-Hrauni við Eyrarbakka, á enga orsök í því, að skilyrðin eru þar óhentug. Húsið var byggt áður og ætlað til allt annara hluta. Það var ætlazt til að nota það sem sjúkrahús eða sjúkraskýli, en á því urðu mistök, og ekki unnt að framfylgja því eins og héraðsbúar ætluðust til, er stóðu að því af miklum áhuga. En er húsið stóð ónotað, var gripið til þess ráðs að nota það til þess arna, til þess að hin dýra bygging yrði þó að einhverjum notum. Eins og tekið er fram í grg., sem fylgir till., er ástæðan til þess. að ég ber hana fram, sú, að hagnýtingin á húsinu sem vinnuhæli fyrir fanga er ekki sem bezt. Það er ekki hægt að segja, að þessi staður hafi verið sem heppilegast valinn til slíks og vinnuhælið eigi rétt á sér að vera þar til frambúðar. Það er álit fjölda margra manna, sem ég vil segja, að séu vel kunnugir þarna, að allir staðhættir séu þannig, að þar eigi vinnuhæli fyrir fanga ekki að vera ákveðinn staður til frambúðar. Vissulega hagar þannig til, að að því ber að stefna að flytja þá stofnun þaðan á brott, og á annan stað, sem er hentugri. Ég hefi drepið á það fáum orðum í grg., sem fylgir till., hverjar ástæður valda því, að vinnuhælið ætti ekki að vera þarna til lengdar. Höfuðástæðan er sú, að þarna eru tiltölulega fjölmenn kauptún sitt til hvorrar handar við vinnuhælið, og að heita má alveg fast við það, og þjóðvegurinn svo að kalla um hlaðið. Það hefir gengið þannig til á liðnum árum, að vinnuhælið hefir ekki komið að tilætluðum notum í framkvæmdinni, og orsökin til þess er í því fólgin, að fangarnir, sem eiga að vera þar einangraðir frá vinnustöðvum annara manna, eru það ekki eins og ætlazt er til. Það hefir ekki reynzt kleift að fylgja því eftir. Það hefir iðulega komið fyrir, að ekki hefir verið mögulegt að framkvæma fulla aðgreiningu á vinnu hinna ófrjálsu manna og annara, sem vinna í námunda við þá. Það er sérstaklega, eins og ég hefi þegar tekið fram, vegna þess, hve stutt er til kauptúnanna, að fangarnir hafa helzt um of notað sitt takmarkaða frjálsræði til að fara þangað, og ég veit, að það hefir bæði orðið föngunum til óþæginda og þorpsbúum einnig, og er nú komið svo, að hvorugir mega vel við una. Eins og ég hefi tekið fram, er vinnuhælið alveg fast við þorpin, og þannig, að ekki er alltaf full skilgreining á vinnu fanganna og annara manna, og auk þess stendur vinnuhælið alveg fast við fjölfarinn þjóðveg. Allt þetta mun mega telja gildar ástæður til þess, að ómögulegt er að segja, að vinnuhælið á Litla-Hrauni sé á hentugum stað. Þar er ekki unnt að koma á nauðsynlegri aðgreiningu á starfsviði fanganna og starfsviði annara manna, og auk þess er annað atriði, sem raunar á skylt við þetta og gerir það að verkum, að starfsviðið sjálft, sem er landareign vinnuhælisins á Litla-Hrauni, er óhentugt. Lönd næstu jarða liggja í afmörkuðum geirum og spildum að og inn á milli Litla-Hrauns landareignar, upp um mýri, sem er fyrir ofan þjóðveginn, og á þessum ræmum, sem eru inn á milli landa, sem aðrir menn eiga, verða fangarnir að vinna úti á sumrin, vorin og haustin. Þess vegna er auðsætt, að ekki er auðvelt að framkvæma aðgreiningu á þann hátt, sem æskilegt væri, og hér um bil ómögulegt að hún geti orðið nein. Jafnframt því er það líka verkefni til athugunar, að umbætur hvað snertir starfsvið fanganna er ekki hentugt að gera á Litla-Hrauni, því að skilyrði til túnræktar og garðræktar heima fyrir eru mjög óhagstæð, af því hvernig landi er þar háttað. Þurrlendið er að mjög miklu leyti hraunland, og þess vegna óhentugt til ræktunar, og enda þótt þar sé að vísu eitthvert sandlendi, sem er hæft til garðræktar, þá er það mjög takmarkað svæði. En umbótastarfsemi hvað snertir þá vinnu ætti einkum að vera fólgin í því að rækta mýrar, sem enn eru óframræstar milli landa kauptúnanna og Litla-Hrauns.

Ég tel hentugast, að land, þar sem fangar væru að heimavinnu, væri þannig, að landrými væri mikið og skilyrði góð til aukinnar ræktunar, því að það er fyrst og fremst gott, að fangarnir ynnu þar sem heimafólk að aukinni túnrækt, garðrækt og öðru slíku. Það væri hentugt, að vinnuhælið væri reist á kyrrlátum stað, þar sem fangarnir gætu starfað á afskekktu svæði, sem alls ekki er á Litla-Hrauni. Ég vil ennfremur geta þess til áréttingar, að enda þótt ætti að bæta úr þessu að nokkru leyti á Litla-Hrauni, með því að stækka landareign vinnuhælisins og nota þannig stærra svæði sem vinnustað fyrir fangana, þá er það miklum annmörkum bundið, og nokkrir af þeim annmörkum, sem ég hefi nú þegar nefnt, myndu verða þar eftir sem áður. Í öðru lagi ber á það að lita, að fjölmenn kauptún þurfa að mínu áliti þessi landsvæði sem starfsvið fyrir sitt heimafólk, og þess vegna er það varhugaverð stefna að taka nokkuð til viðbótar af löndum kauptúnanna og láta vinnuhælið á Litla-Hrauni hagnýta þau, því að fólkið, sem á heima í kauptúnunum, má ekki missa neitt af löndum sínum. Ég veit, að fjölmargir menn, sem bera gott skynbragð á þetta, eru mér sammála. Þeir óska þess, að Litla-Hraun mætti verða til annara nota en að vera áfram fangahæli. Ég tel að vísu, að ekki sé unnt að neita því, að færa mætti sumt til bóta með því að herða á umsjá með föngunum. Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið reynt af alúð að bæta úr annmörkum vinnuhælisins, og er ekki nema gott eitt um það að segja. Þó hefir það sýnt sig, að umbótaráðstöfunum er ekki hægt að framfylgja á þessum stað svo sem þörf krefur. og vildi ég því mælast til, að þessi till. yrði samþ., því að ég tel enga von til þess, að þarna verði bætt að fullu úr ýmsum knýjandi örðugleikum. Ég vona, að hv. þm. sé ljóst, að það beri að stefna að þessu, sem ég nú hefi tekið fram, og þeir muni óska, að hæstv. ríkisstj. vinni að því að athuga þetta mál og reyna að finna heppilegan stað fyrir vinnuhæli. Þar er hagnýtt verkefni fyrir höndum, ekki minnst fyrir þá sök, að það liggur nokkurn veginn í hlutarins eðli, hvernig þeim undirbúningi verður hagað, ef málið verður afgr. til ríkisstj. að þessari umr. lokinni. Hæstv. ríkisstj. mun velja þá hyggnustu og réttsýnustu menn sér til ráðuneytis um það, hvað bezt sé að gera til þess, að vinnuhælið komi að sem beztum notum, bæði hvað snertir verkefni og legu staðarins. Ég tel líka rétt að drepa á, að tilgangur minn með því að bera fram þessa till. er, að eitt atriði, sem er í órjúfanlegu sambandi við þetta, verði tekið til gaumgæfilegrar athugunar, og það er, hvernig hagnýta megi þessa dýru stofnun sem bezt. Ég geng þess ekki dulinn, að því aðeins er hægt að framfylgja þessu nauðsynjaverki, að vinnuhælinu verði fengið sæmilegt verkefni til frambúðar handa þeim mönnum, sem hið opinbera verður að sjá fyrir hvort eð er. Ég minnist þess, að fyrir Alþ. hafa legið till. um ýmsa líknarstarfsemi, og svo að ég nefni eitt, sem er allmjög aðkallandi, má nefna byggingu hælis fyrir fávita. En ég tel, að hæstv. ríkisstj. verði að athuga það jöfnum höndum, hvaða skilyrði eru til þess, að núverandi vinnuhæli á Litla-Hrauni gæti komið að notum til slíkrar starfsemi. Ég vil taka það fram í sambandi við þetta, að auðsætt er, að rekstur vinnuhælisins á Litla-Hrauni hefir orðið nokkuð dýr, þrátt fyrir alla viðleitni til þess að láta hann ekki verða dýrari en vera ber. Hvaða orsakir liggja til þess, að rekstur vinnuhælisins hefir orðið alldýr ríkinu, verður e. t. v. ekki fyllilega skýrt, en einhverjar orsakir hljóta að liggja til þess samhliða annmörkum staðarins, og auk þess, sem ég hefi nú getið um, og sýnir það, að vinnuhælið á ekki þarna að vera.

Ég vil taka það fram, að þegar íslenzk löggjöf steig þetta spor, að fara þannig með fangaða menn, að láta þá vinna til þess að gera gagn og reyna að betra þá með þeirri aðferð, þá mælti allt með því, að það yrði fært til samræmis við þær ráðstafanir, sem tíðkast hjá nágrannaþjóðum vorum á Norðurlöndum, og fá því komið þannig fyrir, að stefnt væri í hina víðsýnustu, réttustu og skynsamlegustu átt, og stefnt yrði að hinu sama fyrirkomulagi hjá okkur sem hjá frændþjóðum vorum, Norðmönnum og Dönum, hvað snertir slík vinnuhæli. Ég hefi sannfrétt frá Noregi, að á vinnuhælum fyrir fanga þar eru fangarnir svo stranglega einangraðir og þess gætt, að þeir umgangist ekki frjálsa borgara, að þar er meira að segja hafður lögregluvörður um hælin, til þess að einangrunin komi að fullum notum. Hjá okkur Íslendingum yrðu að vísu engir möguleikar til slíks, en eftir því sem hentugri staður yrði valinn fyrir vinnuhælið, því meira kynni það að nálgast, að hjá okkur yrði stefnt í sömu átt sem hjá Norðmönnum, og þá myndum við nálgast það á þann veg, sem eðlilegastur og réttastur er, með hentugum starfsgreinum fyrir fangana, og vonandi verður staðurinn fyrir vinnuhælið valinn þannig, að það geti stuðlað að því, að svo mætti verða.

Ég skal verða við beiðni hæstv. forseta og ekki lengja ræðu mína frekar, og mun nú ljúka máli mínu, þó að fleira mætti um þetta segja, í fullu trausti þess, að hv. Nd. sjái sér fært að samþ. þessa till.