17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

71. mál, Varmahlíð í Skagafirði

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Ég er sammála þessum hv. þm. um það, að ekki eigi að nota eignarnámsheimild, nema almenningsheill krefjist þess, en það er einmitt svo í þessu sambandi. Á þessum stað er búið að ákveða að reisa skóla, en það er ekki hægt nema með því að bæla við hann landi. Þegar byrjað var á að reisa sundlaug þarna í fyrra, þá var staður fyrir hana ákveðinn af byggingarfróðum mönnum, en þá varð að láta ruðninginn, sem upp kom, þegar verið var að grafa fyrir henni, inn á land þeirrar jarðar, sem hér um ræðir. Það hefir því valdið erfiðleikum, hvernig þetta hefir staðið af sér. Það er ómögulegt að halda þarna áfram með nokkrar framkvæmdir, nema fá aukið land.

Eins og ég tók fram áðan og einnig kemur fram í áskorun frá Varmahlíðarfélaginu, sem stendur að þessum skóla, þá er það talið svo mikilsvirði að fá þetta land strax, og vil ég í því sambandi benda á, að það hefir verið ráðizt þarna í framkvæmdir, sem alls ekki svara þeim tilgangi, ef reisa á skóla þarna. Það er því bezt að fá úr því skorið, hvort þetta land á að komast í eigu skólans eða ekki. Við teljum rétt að fá úr þessu skorið á þessu ári, og ef ekki nást samningar við eigandann, að hafa þá eignarnámsheimildina í bakhöndinni. Það er mín skoðun, að það eigi að reyna samningaleiðina til hins ýtrasta, en ég tel það svo mikla nauðsyn, að skólinn fái þetta land strax, að ég tel sjálfsagt, að þingið veiti þessa heimild nú.