25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3541)

81. mál, vantraust á ríkisstjórninni, þingrof og kosningar

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Það er í sjálfu sér með öllu gagnslaust að fara að ræða ýtarlega um þessa vantrauststill.; það var fyrirfram vitað, að framkoma hennar væri skrípaleikur einn, þar sem hún var boðuð um leið og stjórnin var mynduð. Mun ég því leiða hjá mér að ræða hana, en svara með nokkrum orðum fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv. um það, hvort allur ágreiningur, sem verið hefði hingað til á milli flokka þeirra, sem stjórnina mynda, hefði verið skrípaleikur einn. Út af þessum ummælum hv. þm. vil ég benda honum á, að flokkur hans, Kommfl., hefir ekki hingað til verið feiminn við að taka upp samstarf við aðra flokka, þar sem hann hefir átt þess kost, og má í því efni minna á samstarf hans við Sjálfstfl. á Norðfirði síðastl. haust, þar sem þessir tveir flokkar gengu sameinaðir til kosninga í bæjarstjórn, og yfir höfuð hefir flokkur hv. 5. landsk. ekki verið feimin að ganga til samstarfs við aðra flokka í bæjarmálefnum að minnsta kosti.

Þá drap þessi hv. þm. á það, að Framsfl. og Alþfl. hefðu gengið til síðustu kosninga í fullri andstöðu við Sjálfstfl. Hvað sem um þetta kann að mega segja, þá er hitt þó víst, að Kommfl. gekk til kosninga í fullri andstöðu við alla aðra flokka, en þó hefir hann siðan gert samband við nokkurn hluta Alþfl., enda þótt örlítill hluti sé, og virðist telja það ofur eðlilegt. En ég vil spyrja, — er það ekki breytt viðhorf hjá honum til þessara mála frá síðustu kosningum? Ég segi jú. Annars er þetta ekkert nýtt fyrirbrigði á sviði stjórnmálanna, þó að stjórnmálaflokkar, andstæðir í skoðunum að því er snertir sum atriði á sviði þjóðmálanna, geti hugsað sér samstarf til þess að leysa aðkallandi verkefni. Þannig vinna t. d. jafnaðarmenn og frjálslyndir saman í Danmörku. Í Svíþjóð og Finnlandi hafa margir flokkar tekið höndum saman til þess að vinna að úrlausn á mestu vandamálum þjóðanna. Nokkuð hið sama má segja um Belgíu. Hjá okkur varð það niðurstaðan, þegar eftir að þing kom saman, að fara að vinna að því og taka ákvörðun um það, hvort allir aðalflokkar þingsins ættu ekki í þetta sinn að taka höndum saman um lausn hinna miklu vandamála, sem að okkur steðja.

Mér kom dálítið einkennilega fyrir sjónir sú mikla umhyggja og velvild, sem fólst í orðum hv. 5. þm. Reykv. til Alþfl., og þau viðurkenningarorð, sem hann talaði í garð flokksins. Ég man þá tíð, því að hún er ekki langt að baki, þegar kommúnistar héldu því fram, að Alþfl. væri aðalstoð auðvaldsins og hættulegri en flestir aðrir flokkar í þjóðfélaginu. Þá vorum við faldir mestu þjóðfjendur, eins og hv. 1. landsk. telur okkur vera enn, og ég get vel trúað, að hann meini það sama í dag og á alþýðusambandsþinginu, að við séum hættulegir frá sjónarmiði kommúnista.

Ég þarf ekki að gera grein fyrir því af hálfu Alþfl. hvað það er, sem hefir dregið til stjórnarsambands. Frá því hefir þegar verið skýrt, og það hefir komið fram í yfirlýsingu flokksins, Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh., að það er hreinasta „farce“, það er skrípaleikur að flytja vantraust nú nokkrum dögum eftir að ríkisstj. er mynduð, samtímis því sem mikill meiri hl. Alþingis styður hana. Tíminn mun leiða í ljós tilverurétt hennar. Verk hennar munu sýna, hvernig hún tekur á málunum. Þá getum við rætt við hv. þingheim um vantraust, þegar séð er, hvort hlutverk stj. hefir tekizt eða mistekizt.