25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3543)

81. mál, vantraust á ríkisstjórninni, þingrof og kosningar

*Einar Olgeirsson:

Það kom mér ekkert á óvart, að ráðh. og fulltrúar stjórnarflokkanna vildu sem minnst um þetta mál ræða. Það, að ekki er útvarpað umr., bendir og til þess, að þeim er ekki um að vera að ræða þessi mál opinberlega. Ríkisstj. hefir verið mynduð með baktjaldamakki, sem staðið hefir í allan vetur. Það hófst með því, að hv. þm. G.-K., nú hæstv. atvmrh., og hv. þm. S.-Þ. tóku að bræða sig saman um ákveðið mál. Svo víkkaði hringurinn út frá þeim smám saman. Allan veturinn var farið með þetta eins og mannsmorð. Reynt var að gæta þess, að ekki væri talað um útífrá.

Það hafa ekki verið málefnin, sem vakað hafa fyrir þessum mönnum, heldur hitt, að halda völdum. Enda hafa þeir ekki byrjað á að setja upp stefnuskrá, sem þeir vildu reyna að sameina þjóðina um. Nei, það eina, sem hefir heyrzt um samstarfið, er þetta: Hvernig eigum við að skipta ráðherraembættunum niður? Hvað á Eysteinn að hafa, og hvað Jakob Möller? Um þetta hefir slagurinn staðið, en ekki um hitt, hvort hægt væri með einhverjum ráðstöfunum að láta fólkinu í landinu líða betur.

Þessir menn óttast, að alþjóð fari að standa betur saman en hún hefir hingað til gert. Við síðustu kosningar kom í ljós eindreginn vilji með vinstri pólitík. Það þarf ekki að færa sönnur á það, að þó að forsrh. kalli þessa vantrauststill. óþinglega, þá er ríkisstj. sjálf það ólýðræðislegasta, sem til hefir verið í þessu landi. Stj. lafir bara á einni gr. í stjórnarskránni: að þm. séu bundnir við sína sannfæringu. Á þessum grundvelli er ríkisstj. mynduð. En ég vil benda hæstv. ráðh. á, að eftir sömu kokkabók er hægt að afnema allt lýðræði í landinu. Úr því að þjóðin fær að dæma, þó að ekki sé nema fjórða hvert ár, er það gert í trausti þess, að flokkarnir haldi í þessi fjögur ár við þá stefnu, sem kosið var eftir. Ef ekki er hægt að treysta því, er ekkert lýðræði lengur til.

Það er talað um, að ríkisstj. hafi þingfylgi. Það hefir Hitler líka, — 100% þingfylgi. — Spurningin er ekki um það, heldur hvert fylgi slík stjórn hafi hjá þjóðinni, sú stjórn, sem montar af því, að hún hafi fylgi 9/10 hluta þingmanna, en ekki þorir að leggja til kosninga. Slík stjórn ætti sem minnst að monta af sínu þingfylgi, sem hún telur, að allt megi gera með, en til þjóðarinnar þurfi aftur á móti ekkert tillit að taka.

Hæstv. félmrh. kom með alllélega vörn fyrir sinum Mac-Donaldisma. Hann sagði, að flokkur hans hefði ekki lýst því yfir áður en gengið var til kosninga, með hverjum hann ætlaði að vinna. Hafi nokkur flokkur lýst því ákveðið yfir, þá var það Alþfl., áður en hann gekk til kosninga 1937. Ef hæstv. félmrh., sem kallar sig forseta Alþýðusambandsins, hefir gleymt, með hverjum Alþfl. ætlaði að vinna, þá má minna hann á það. Árið 1937 var samþ. á alþýðusambandsþinginu að ganga aldrei til samvinnu við kommúnista, alls ekki við Framsfl. og svo fjarlægt var það þeim að ganga til samvinnu við Bændafl. eða Sjálfstfl., að slíkt þurftu þeir alls ekki að ræða um. Þessu er forseti sambandsins e. t. v. búinn að gleyma. Á grundvelli þessarar starfsskrár var kosningabaráttan háð og gengið til kosninga og þm. Alþfl. kosnir. Þess vegna á Alþfl. að segja, hvað hann nú ætlar að gera í þessari samvinnu.

Svo kemur það, sem er aðalatriðið í sambandi við samstarf þessara flokka. Út frá sjónarmiði flokks eins og Alþfl. getur samstarf milli flokka að vísu komið til mála, en það verður þá að vera samstarf um ákveðin málefni, samstarf um framgang baráttumála flokksins, sem leysa má með samkomulagi, eins og þegar Alþfl. gerir samband við Sjálfstfl. til að breyta kjördæmaskipuninni. Er það tilgangurinn nú? Nei, þvert á móti. Nú er gert samkomulag um málefni, sem Alþfl. var að berjast á móti við síðustu kosningar, samkomulag um að lækka laun verkalýðsins, svipta hann verkfallsrétti sínum að nokkru leyti og að velta milljónaskuldum Kveldúlfs yfir á þjóðina. Allt mál, sem Alþfl. barðist á móti við síðustu kosningar. Að svo miklu leyti, sem þessi stjórn er ekki stefnulaus bræðingur milli flokka, þá er hún samkomulag um að vinna gegn verkalýðnum, sem Alþfl. taldi sig vera að berjast fyrir við síðustu kosningar.

Hæstv. félmrh. kom inn á afstöðu Kommfl. við síðustu kosningar. Við síðustu kosningar studdi hann á mörgum stöðum í landinu bæði Alþfl. og Framsfl., til þess að tryggt væri, að þessir flokkar fengju meiri hl. á Alþ., þessir flokkar, sem lýstu því yfir, að þeir væru tryggustu varðmenn alþýðunnar gegn íhaldinu, og atkv. kommúnista riðu baggamuninn í mörgum kjördæmum. Kommfl. sýndi ákveðinn vilja sinn með því að kjósa þessa flokka, sem samkv. þeirra eigin yfirlýsingu báru hag verkalýðsins fyrir brjósti. Þeir kusu þá til að tryggja, að íhaldið fengi ekki meiri hl. á Alþ., og höfðu þannig óbeint samstarf við þessa flokka.

Hæstv. félmrh. talaði um, að vantrauststill. væri skrípaleikur. Það mætti segja um stjórn þá, sem hér hefir verið mynduð, ef málið væri ekki alvarlegra en svo. Það, sem er skrípaleikur, er framkoma þeirra manna, sem stóðu frammi fyrir kjósendunum 1937 og þóttust vera ákveðnir andstæðingar íhaldsins, og allar ræður, sem haldnar hafa verið um það, hvað stjórnin ætlaði að gera, hafa sannað, að réttmætt var að bera till. um vantraustið fram nú þegar. Það er búið að koma fram í blöðum Alþfl., að réttast væri að banna Sósíalistafl. Menn geta nærri, af hverju sú krafa stafar. Af ótta þeirra manna, er óttast, að fylgi þeirra mundi hafa minnkað helzt til mikið síðan 1937, ef kosningar fengjust strax. Það er afturhaldið í landinu, sem vill berja niður þá flokka, sem harðsnúnastir eru á móti því.

Hvað þýðir þetta þingræðislega og lýðræðislega séð, að flokkarnir, sem sviku loforð sín frá því í kosningunum 1937, hafi tækifæri til að banna Sósíalistaflokkinn? Það mundi þýða það, að sporið yrði stigið til fulls af þeim mönnum, sem sitja í þessari stjórn, sem hefir slíkt þingfylgi. Íslenzku þjóðinni mundi ekki lengur gefinn kostur á að segja til um það á lýðræðislegan hátt, hver skoðun hennar á málunum væri. Við höfum sýnt fram á það hvað eftir annað, að í skjóli þingræðisins er hægt að afnema allt lýðræði, eða veita því banahögg, og við höfum séð, að sú tilhneiging hefir þegar komið fram — við myndun þessarar stjórnar. Svo þarf ekki nema eitt spor í viðbót til að banna íslenzkum verkalýð að gera verkfall, banna Sósíalistaflokkinn. Þess vegna er það skylda okkar að benda strax á þessa hættu og krefjast þingrofs og kosninga þegar í stað, og ef þeir þm., sem stofnað hafa til þessarar stjórnar, vilja kalla sig lýðræðissinnaða, þá er það skylda þeirra að leggja gerðir sínar undir dóm þjóðarinnar. Ef þeir gera það ekki, sanna þeir, að þeir búa yfir þeim ráðum, sem þeir þora ekki að leggja undir dóm þjóðarinnar, ráðum, sem þeir ætla að framkvæma án þess að spyrja um vilja þjóðarinnar. Þá er hægt fyrir þá að stofna til kosninga á þann hátt, að verkalýðurinn geti ekki haft sinn flokk í kjöri, og á því vil ég vekja athygli í sambandi við þessar umr. Það mun koma í ljós, ef þessi stjórn fer lengi með völd, hvort ekki var full ástæða til þess nú þegar að vekja eftirtekt þjóðarinnar á því, hvernig komið er, og krefjast þess, að þeir menn, sem mynduðu þjóðstjórnina, þori að standa við það frammi fyrir þjóðinni.