25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3560)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Meiri hl. fjvn. hefir komið sér saman um að gera þá till., að stjórnin hefði heimild til þess að selja þessi tvö skip, gæzluskipið Þór og vitabátinn Hermóð.

Ég get verið mjög stuttorður um þetta mál, því að að því liggja glögg rök. Þór kostar nú um það bil 200 þús. kr. á ári í rekstri, en hefir þó raunar ekki verið notaður nema af og til. Hann hefir verið notaður við Vestmannaeyjar alla vertíðina og stundum til fiskirannsóknaferða. En það er óneitanlegt, að það hefir ekki verið hægt að finna eðlilega notkun fyrir hann seinni árin, eða þó að það hefði mátt finna verkefni fyrir hann önnur, þá hefir það verið sparað og dregið úr notkun hans. En á skipi með mörgum föstum mönnum sparast ekki svo mikið, þó að það sé látið vera ónotað tíma úr árinu. Samt hefir það verið gert af og til með gæzluskipin, einkum meðan þau voru þrjú.

Nú verður ekki um það deilt, að Vestmannaeyjar eru mest útsetti staðurinn á landinu á vetrarvertíð, og þar verður að sinna bezt, ef ekki gæzlu, þá björgun. En nú hefir fjvn. komið það til hugar, að það mætti létta á ríkissjóðnum með því að selja Þór, og að væntanlega mætti selja hann innanlands, því að hann mundi vera mjög gott síldarskip. Hvort hann yrði eftirsóttur sem togari, skal ég ekki fullyrða neitt um. En í stað Þórs mundi koma bátur á stærð við Óðin, og slíkur bátur mundi kosta í rekstri um 100 þús. kr. Þarna yrði helmingssparnaður, miðað við að gera Þór út eins og nú er gert, sem munar okkur miklu, einkum af því að það er að verða meiri og meiri tiltrú á því að hafa báta til gæzlu heldur en áður var. En til þess nú að Vestmannaeyingar — — það er dálítið erfitt að tala vegna hávaða. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gefa hljóð). Engum dettur í hug annað en að Vestmannaeyingar verði að hafa þá beztu aðstöðu, sem landið getur veitt um gæzlu. Þess vegna er stungið upp á því hér að hafa Ægi að eins miklu leyti og hægt er við að koma á vetrarvertið við Vestmannaeyjar, en þegar hann getur ekki vegna vélarhreinsunar verið þar, þá verði Óðinn eða annar bátur hafður þar í staðinn. Vestmannaeyingar munu e. t. v. álíta þetta afturför. En 100 þús. kr. á ári eru ekki litlir peningar, sem og Vestmannaeyingar munu játa. Og útgerðarstjórnin hefir sagt mér, að henni þætti miklu skipta, að vélbátur verði hafður við Vestmannaeyjar til þess að gæta netanna. Álít ég það heppilegra en að hafa svona dýrt skip þar til gæzlu, sem landið hefir ekki að öðru leyti með að gera. En viðvíkjandi kostnaðinum við gæzluna er ekki hægt að reikna kostnaðinn við Ægi minna en 300 þús. kr. í rekstri á ári. Bátur eins og Óðinn kostar um 100 þús. kr. í rekstri á ári. Félögin, sem hafa Sæbjörgu, munu líklega láta ríkið fá hana, og hún mun kosta um 200 þús. kr. í rekstri. Síðan eiga Vestfirðir að hafa þriðja bátinn. Norðlendingar verða líka að hafa bát til gæzlu hjá sér; þá er kominn fjórði báturinn. Þess vegna bið ég menn að athuga, að það skiptir mjög miklu, hvort menn vilja hafa fjóra báta til gæzlu við landið, sem kosta í rekstri hver um sig 100 þús. kr., og Ægi, sem kostar 300 þús. kr. í rekstri, og bæta svo Þór ofan á með 200 þús. kr. rekstrarkostnaði.

Vitabáturinn Hermóður hefir kostað miklu minna í rekstri nú upp á síðkastið en áður. En hann er yfirleitt ekki notaður nema að sumrinu til vitaflutninga. Líklega kostar hann 50–60 þús. kr. í rekstri yfir árið nú. Nú hefir fjvn. fullkomna ástæðu til að halda, að hægt muni vera að sinna flutningum til vitanna fyrst og fremst með því að senda nokkuð af efninu til vitanna með strandferðaskipunum. Dálítið er hægt að senda af þessu með bilum. Öðrum flutningum á sjó til vitanna má gera ráð fyrir, að verði hægt að koma fyrir með varðbátunum, og það í raun og veru með tiltölulega litlum kostnaði eða kostnaðarlaust, þar sem þeir hvort sem er eru á ferðinni með ströndum landsins.

Ætla ég svo ekki að fjölyrða um þetta mál. Ég álít mjög heppilegt, að það fari fram atkvgr. um þessa þáltill. hér. Það getur vel verið, að hæstv. Alþ. felli þessar till. En ég vil bara benda mönnum á, ef hv. þm. hugsa sér að gerbreyta fjárl. landsins, að menn hafa mikið talað um, að það eigi að lækka fjárl. svo að nemi milljónum. En það er óhugsandi nema menn þori að gera nýsköpun eins og þetta. Annað mál væri, þó að sagt væri, að við þyrftum að hafa vitabát, ef við hefðum engar strandferðir, sem við gætum notað í staðinn.

Ef menn segja, að við þurfum að hafa Þór við Vestmannaeyjar, þó að við fjölgum gæzlubátum vegna annara landshluta — og þó að við bjóðum Vestmannaeyingum bezta skipið, sem landið á — ef þessar till. verða felldar, þá megum við ekki vera allt af bjartsýnir á, að í haust verði fjvn. í skapi til þess að gera ráðstafanir til, að léttir verði skattarnir.