25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3565)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

Finnur Jónsson:

Í tilefni af sölu Óðins bar sjútvn. Nd. fram þáltill. 1936 um framkvæmd landhelgieftirlits og björgunarstarfs, þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að verja öllu andvirði gæzluskipsins Óðins til smíði á vopnuðum vélbátum til landhelgigæzlu á svæðum þeim, þar sem mest væri þörfin. Áttu þeir að annast strand- og veiðarfæragæzlu og gæzla þessi að vera staðbundin. Þá var og gert ráð fyrir því, að ríkisstj. leigði báta til þessa, að svo miklu leyti sem hinir gætu ekki annazt gæzluna að fullu.

Nú var Óðinn seldur fyrir 250 þús. kr., en kostnaðurinn við smíði á vélbátnum Óðni var 100 þús. kr., svo að hægt hefði verið að fá a. m. k. 2½ slíkan vélbát fyrir andvirðið. En þetta hefir ekki verið gert, þrátt fyrir yfirlýstan vilja Alþingis í þál. þeirri, sem ég gat um. Nú er það vitanlegt, að hjá þeim, sem sjávarútveginn stunda, er mikill vilji til að reyna að fá sem fyrst vélbáta til landhelgisgæzlu, er starfi jafnframt að björgun og aðstoð við bátaútveginn. Og í sambandi við till. um sölu á Óðni bárum við þm. Vestfjarða ásamt hv. þm. Ak. fram till. um að skora á ríkisstj. að hefja samninga við slysavarnasveit Vestfjarða. Er mér kunnugt um, að Vestfirðingar hafa á árinu, sem leið, boðið fram fjárhæð, sem svarar helmingi af kostnaði við smíði báts á stærð við Óðin. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvað líður þessu máli og hví ekki er enn byrjað á smíði þessa skips. Fyrir þessu er mikill áhugi á Vestfjörðum, eins og sést á þessu tilboði úr ekki auðugra héraði. Teldi ég illa farið að fækka enn landhelgisgæzluskipunum, meðan ekki er farið að framkvæma augljósan vilja þingsins, sem fram kom í sambandi við sölu Óðins.

Auk þess, sem þegar hefir verið minnzt á hér um vandkvæðin á því að selja Þór, má geta þess, að nú standa yfir fiskirannsóknir, sem gerðar eru samkv. alþjóðasamkomulagi um friðun Faxaflóa, og er tæplega hægt að fá annað skip heppilegra til þeirra rannsókna en Þór. Væri frekar ástæða til að auka þær rannsóknir en draga úr þeim, og væri því um greinilega afturför að ræða fyrir sjávarútveginn, ef Þór yrði seldur.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, en vildi sérstaklega óska þess, að hæstv. forsrh. svaraði fyrirspurn minni um það, hvað líði samningum við Vestfirðinga um byggingu nýs mótorbáts, er yrði staðbundinn við Vestfirði og annaðist þar björgunarstarf og gæzlu.